EM einstaklinga: Guðmundur lauk keppni með 5 vinningaGuðmundur að tafli á Evrópumótinu.

Guðmundur að tafli á Evrópumótinu.

Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson (2464) hlaut 5 vinninga í 11 skákum á Evrópumóti einstaklinga sem fram fór í Minsk, Hvíta-Rússlandi, dagana 30. maí – 10. júní. Sigur vannst í þremur viðureignum, fjórum lauk með jafntefli og öðrum fjórum með ósigri. Árangur Guðmundar samsvarar 2365 Elo-stigum og lækkar hann um 5 stig.

Í níundu umferð gerði Gummi gott jafntefli við úkraínska stórmeistarann Mykhaylo Oleksiyenko (2636) en tapaði í þeirri tíundu gegn samlanda hans og kollega, Stanislav Bogdanovich (2596). Jafntefli var svo niðurstaðan í lokaumferðinni gegn enn einum úkrönskum skákmanni, Fide-meistaranum Dmitry Kononenko (2255).

Þrír skákmenn urðu efstir og jafnir með 8,5 vinning; stórmeistararnir Maxim Matlakov (2714), Baadur Jobava (2713), sem tefldi á síðastliðnu Reykjavíkurskákmóti, og Vladimir Fedoseev (2690), en sá hefur klifið stigalistann duglega að undanförnu.

Að móti loknu má segja að Gummi hafi nánast komið út á sléttu en tvö sterk jafntefli gegn stórmeisturum með ríflega 2630 Elo-stig nýttust ekki alveg sem skildi þar sem önnur tvö jafntefli gegn nokkuð stigalægri skákmönnum hægðu á ferðinni. Engu að síður, prýðis niðurstaða í afar sterku og fjölmennu móti sem líkast til er ekki það besta fyrir skákmann á því stigabili sem Gummi er á, sérstaklega þegar horft er til þess að markmið hans þessi misserin er að ná 2500 Elo-stigum til klára stórmeistaratignina.

Í svo fjölmennu og opnu móti veldur hið svissneska pörunarkerfi því gjarnan að þeir skákmenn sem eru í kringum miðju keppenda hvað fjölda Elo-stiga varðar, líkt og Gummi, lenda í töluverðum sveiflum þegar kemur að styrkleika andstæðinga. Þetta sést ágætlega þegar andstæðingar hans í mótinu eru skoðaðir; stigamunur á Gumma og andstæðingum hans var að lágmarki u.þ.b. 150 Elo-stig hvort sem hann tefldi við stigahærri eða stigalægri skákmenn.