Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson sigraði örugglega á Gagnaveitmótinu – Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur sem lauk síðastliðinn föstudag. Einar Hjalti, sem var í forystu frá upphafi móts, tapaði ekki skák og hlaut 7,5 vinning úr níu skákum. Jafnir í 2.-3. sæti með 7 vinninga urðu alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og stórmeistarinn Stefán Kristjánsson en þeir gerðu áreynslulaust jafntefli í innbyrðis viðureign í lokaumferðinni jafnvel þó þeir hefðu möguleika á að ná Einari Hjalta að vinningum. Strax og úrslit í viðureign Jóns og Stefáns voru ljós bauð Einar Oliver Aroni Jóhannessyni jafntefli sem sá síðarnefndi þáði og þar með var sigur Einars í höfn.
Þeir Einar Hjalti,Stefán og Jón Viktor höfðu mikla yfirburði í A-flokknum en næstur með 5 vinninga kom Stefán Bergsson, sem vann Jóhann H. Ragnarsson í lokaumferðinni, en Stefán stóð sig afar vel í mótinu og tapaði aðeins fyrir nafna sínum og Jóni Viktori. Næstir í mark með 3,5 vinning komu hinir ungu og efnilegu Fjölnisdrengir, Oliver Aron og Dagur Ragnarsson, en þeir hafa báðir sýnt að þeir eiga fullt erindi í A-flokkinn. Í lokaumferðinni gerði Oliver jafntefli við Einar Hjalta eins og áður segir og þá gerði Dagur jafntefli við Sverri Örn Björnsson.
Á eftir hinum vösku sveinum komu þrír öllu reynslumeiri kappar jafnir með 3 vinninga, þeir Gylfi Þór Þórhallsson, Sverrir Örn Björnsson og Jóhann H. Ragnarsson. Kjartan Maack rak lestina að þessu sinni með 2,5 vinning en hann lagði Gylfa í lokaumferðinni en Kjartan átti strembið mót að þessu sinni. Þar sem Kjartan var eini félagsmaður T.R. í A-flokki hlýtur hann nafnbótina Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2013.
Keppnin í A-flokki var mjög skemmtileg og þar var áhugaverð flóra keppenda. Einn stórmeistari, einn alþjóðlegur meistari og einn Fide meistari ásamt öðrum mjög reynslumiklum skákmönnum börðust þar sín í milli og ásamt þeim voru tveir af efnilegustu skákmönnum þjóðarinnar sem spreyttu sig gegn hinum reyndari. Það má með sanni segja að að þeir Dagur og Oliver séu á meðal nýrra fyrirmynda yngstu skákiðkendanna því hegðun þeirra og framkoma í og við skákborðið er til algjörrar fyrirmyndar. Þá eru þeir vel æfðir og virðast hafa stáltaugar því þeir láta það ekki á sig fá þó andstæðingurinn sé oftar en ekki mun reynslumeiri og stigahærri.
Eins og við var búist höfðu titilhafarnir í flokknum töluverða yfirburði og þó svo að Einar Hjalti sé stigalægstur af þremenningunum þarf sigur hans ekki að koma svo mjög á óvart. Einar hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og þar virðist mikil vinna hans við stúderingar vera að skila sér. Einar Hjalti hefur að undanförnu sýnt það að þeim „eldri“ er alls ekki ómögulegt að bæta sig ef viljinn er fyrir hendi.
Taflfélag Reykjavíkur óskar Einari Hjalta til hamingju með glæsilegan sigur.
Í B-flokki sigraði félagi Dags og Olivers úr Fjölni, Jón Trausti Harðarson, af miklu öryggi með 8 vinninga. Það er ekki á neinn hallað þó sagt sé að hann hafi átt sigurinn fullkomlega skilinn enda án efa sterkasti keppandinn í flokknum og í mikilli uppsveiflu. Heilt yfir sýndi Jón Trausti mikið öryggi í viðureignum sínum og sigur hans í flokknum var í raun aldrei í neinni hættu og leiddi hann allan tímann. Hann lauk svo keppni með mjög auðveldum sigri á Herði Garðarssyni í lokaumferðinni.
Ingi Tandri Traustason varð annar með 6 vinninga en hann tapaði fyrir Sverri Sigurðssyni í lokaumferðinni en Ingi Tandri hafði lengi vel fylgt Jóni Trausta eins og skugginn en missti flugið í lokaumferðunum. Jöfn í 3.-4. sæti með 5,5 vinning urðu Þórir Benediktsson og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir en líkt og Ingi var seinni hluti þeirra í mótinu ekki eins góður og sá fyrri.
Sverrir Sigurðsson og Tinna Kristín Finnbogadóttir komu næst í mark með 4,5 vinning. Sverrir sigldi lygnan sjó allt mótið og tapaði aðeins tveimur skákum en eftir slæma byrjun Tinnu kom hún sterk til baka og vann fjórar af síðustu fimm skákunum. Vel gert hjá Tinnu Kristínu sem getur betur og ef hún fínpússar ögn sinn „villta“ skákstíl þarf ekki að bíða lengi eftir árangrinum. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir kom næst með 4,5 vinning en þeir þrír neðstu áttu allir slæmt mót að þessu sinni og geta allir gert mun betur. Atli Antonsson hlaut 2,5 vinning, Páll Sigurðsson 2 vinninga og Hörður Garðarsson fékk 1 vinning. Spennandi verður að fylgjast með Jóni Trausta spreyta sig í A-flokknum að ári.
C-flokkurinn var án nokkurs vafa sá mest spennandi í mótinu að þessu sinni. Mjög jöfn barátta var á toppnum og skipti efsta sætið um eigendur eftir flestar umferðir. Fyrir lokaumferðina voru Elsa María Kristínardóttir og Valgarð Ingibergsson efst og jöfn en þau mættust einmitt í lokaumferðinni. Svo fór að Elsa María sigraði og tryggði sér þar með sigur í flokknum með 6 vinninga en Sigurjón Haraldsson kom jafn Elsu í mark en Elsa varð hærri eftir stigaútreikning og á því öruggt sæti í B-flokki að ári.
Það er til marks um hversu jafn C-flokkurinn var að þrír keppendur komu næstir í mark með 5 vinninga, þau Birkir Karls Sigurðsson, Valgarð og Kristófer Ómarsson. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá Valgarð meðal keppenda en honum munaði ekki um að aka frá Akranesi í hverja umferð.
Sviptingar voru sömuleiðis í opna flokknum þar sem Haukur Halldórsson virtist vera að sigla sigrinum rólega í höfn. Töp í lokaumferðunum tveimur gerðu það hinsvegar að verkum að hin unga og efnilega Sóley Lind Pálsdóttir sigraði í flokknum með 7 vinninga en Sóley var í toppbaráttunni allt mótið. Þess má geta að Sóley er dóttir Páls Sigurðssonar sem keppti í B-flokki. Margir ungir og efnilegir skákmenn höfnuðu í næstu sætum ásamt Vinarfélagsmönnum sem ánægjulegt er að sjá hve duglegir þeir eru við þátttöku í skákmótum.
TR-ingurinn ungi Björn Hólm Birkisson varð annar með 6,5 vinning en Hjálmar Sigurvaldason, Hilmir Hrafnsson og Haukur komu næstir með 6 vinninga. Tvíburabróðir Björns Hólms, Bárður Örn, hlaut 5,5 vinning ásamt Guðmundi Agnari Bragasyni sem einnig er í T.R. og þá hlaut enn einn TR-ingurinn, Mykhaylo Kravchuk, 4,5 vinning. Sannarlega góður árangur hjá hinum ungu TR-ingum og er félagið stolt af því að hafa svo marga glæsilega fulltrúa innan sinna vébanda.
Gagnaveitumótið var í alla staði mjög vel heppnað og kann Taflfélag Reykjavíkur Gagnaveitunni hinar bestu þakkir fyrir veittan stuðning. Þá ber að þakka keppendum fyrir þátttökuna og þá þolinmæði sem þeir sýndu vegna frestaðra viðureigna sem voru þónokkrar í mótinu. Nýtt fyrirkomulag þar sem teflt var tvisvar í viku þótti heppnast vel og ljóst að skoðað verður vel hvort sama fyrirkomulagi verði haldið næstu ár. Skákstjórn var í öruggum höndum Ólafs S. Ásgrímssonar og Ríkharðs Sveinssonar, glæsilegar veitingar annaðist hin síunga Birna Halldórsdóttir og þá sá Kjartan Maack um mjög snöggan innslátt skáka. Hér að neðan má sjá samantekt um efstu sæti ásamt mestu stigahækkunum.
Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur 2013
- Kjartan Maack
A-flokkur
- 1. Einar Hjalti Jensson 7,5v
- 2.-3. Jón Viktor Gunnarsson 7
- 2.-3. Stefán Kristjánsson 7
B-flokkur
- 1. Jón Trausti Harðarson 8v
- 2. Ingi Tandri Traustason 6
- 3.-4. Þórir Benediktsson 5,5
- 3.-4. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir 5,5
C-flokkur
- 1.-2. Elsa María Kristínardóttir 6v
- 1.-2. Sigurjón Haraldsson 6
- 3.-5. Birkir Karl Sigurðsson 5
- 3.-5. Valgarð Ingibergsson 5
- 3.-5. Kristófer Ómarsson 5
Opinn flokkur
- 1. Sóley Lind Pálsdóttir 7v
- 2. Björn Hólm Birkisson 6,5
- 3.-5. Hjálmar Sigurvaldason 6
- 3.-5. Hilmir Hrafnsson 6
- 3.-5. Haukur Halldórsson 6
Mestu stigahækkanir
- Jón Trausti Harðarson 48
- Ingi Tandri Traustason 41
- Sóley Lind Pálsdóttir 27
- Einar Hjalti Jensson 23
- Gauti Páll Jónsson 22
- Guðmundur Agnar Bragason 21
- Elsa María Kristínardóttir 19
- Birkir Karl Sigurðsson 18
- Stefán Bergsson 16
- Oliver Aron Jóhannesson 15
- Tinna Kristín Finnbogadóttir 13
- Úrslit, staða og pörun
- Skákir: 1 2 3 4 5 6 7 8 9
- Myndir