Einar Hjalti og Jón Viktor á toppnum í Skákþingi ReykjavíkurAlþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson unnu báðir viðureignir sínar í sjöttu umferð Skákþings Reykjavíkur sem fram fór í gærkvöldi og eru efstir og jafnir með 5,5 vinning.  Jón Viktor vann öruggan sigur á Fide meistaranum Davíð Kjartanssyni eftir ónákvæmni Davíðs snemma skákar.  Einar Hjalti hafði hinsvegar betur gegn kollega sínum, Sigurbirni Björnssyni, eftir slæman afleik þess síðarnefnda í stöðu þar sem Sigurbjörn hafði betra tafl.

Þorvarður Fannar Ólafsson kemur næstur með 5 vinninga ásamt ungu ljónunum, Degi Ragnarssyni og Erni Leó Jóhannssyni.  Þorvarður lagði Jón Trausta Harðarson, Dagur sigraði Ólaf Gísla Jónsson og Örn Leó vann Stefán Bergsson í tryllingsskák þar sem Stefán gekk berserksgang með mikilli hópfórn manna sinna.  Stefán, sem er þekktur fyrir annað eins, hafði ekki erindi sem erfiði að þessu sinni og Örn Leó svaraði að bragði og mátaði norðlendinginn skrautlega.

Af öðrum eftirtektarverðum úrslitum má nefna jafntefli Vignirs Vatnars Stefánssonar og Olivers Arons Jóhannessonar sem og jafntefli Ólafs Hlyns Guðmarssonar og Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur.  Þá vann hinn tíu ára Mykhaylo Kravchuk glæsilegan sigur á Herði Aroni Haukssyni en 300 Elo stigum munar á þeim.

Spennan heldur áfram á sunnudaginn þegar sjöunda umferð fer fram en hún hefst kl. 14.  Þá mætast m.a. Dagur og Jón Viktor, Einar Hjalti og Þorvarður sem og Örn Leó og Júlíus L. Friðjónsson.  Rétt er að benda á að allar skákir mótsins eru aðgengilegar hér að neðan og þá eru hátt í 200 glæsilegar myndir komnar í myndaalbúm mótsins.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 7 8 9
  • Myndir
  • Mótstöflur SÞR
  • Skákmeistarar Reykjavíkur