Einar Hjalti í forystu á Haustmótinu



Alþjóðlegi meistarinn Einar Hjalti Jensson sigraði kollega sinn, Braga Þorfinnsson, í sjöttu umferð Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur og náði þar með efsta sætinu af Braga.  Einar hefur 5 vinninga en Bragi kemur næstur með 4,5 vinning og þá Oliver Aron Jóhannesson með 4 vinninga en hann á inni frestaða skák gegn alþjóðlega meistaranum Sævari Bjarnasyni.  Örn Leó Jóhannsson er fjórði með 3,5 vinning en hann hefur átt gott mót og lagði stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu, í sjöttu umferð.

Í B-flokki voru friðarpípur reyktar af kappi því fjórum skákum af fimm lauk með skiptum hlut og var ein þeirra viðureigna á milli Guðlaugar Þorsteinsdóttur og ungstirnisins Vignis Vatnars Stefánssonar en þar með lauk sigurgöngu Guðlaugar.  Agnar Tómas Möller er efstur ásamt Guðlaugu með 4,5 vinning en sú síðarnefnda  á inni frestaða skák gegn Ólafi Gísla Jónssyni.  Vignir kemur næstur með 4 vinninga og ljóst er að það stefnir í æsispennandi lokakafla.

Af C-flokki er það að frétta að liðsfélagarnir Gauti Páll Jónsson og Veronika Steinunn Magnúsdóttir eru í algjörum sérflokki en Gauti leiðir flokkinn með fullu húsi vinninga eftir sigur á Aroni Þór Mai.  Veronika er næst með 4,5 vinning, en hún hafði betur gegn Herði Jónassyni, og jafnir í 3.-4. sæti með 3 vinninga eru Ólafur Guðmarsson og Heimir Páll Ragnarsson.  Aron Þór getur skotist upp í 3. sætið en hann á inni frestaðar viðureign gegn Héðni Briem.

Í opna flokknum er hart barist á toppnum en á efsta borði gerðu jafntefli Alexander Oliver Mai og Arnar Milutin Heiðarsson en við hlið þeirra lagði Guðmundur Agnar Bragason Jón Þór Lemery.  Alexander hefur því 5 vinninga og er enn efstur en aðeins hálfur vinningur er í þá Arnar og Guðmund.

Sjöunda umferð fer fram á morgun sunnudag hefjast orrusturnar á slaginu 14:00.  Áhorfendur velkomnir – heitt á könnunni og ljúffengar veitingar!

Úrslit, staða og pörun