Skákmenn á öllum aldri fjölmenntu á Stórmót Árbæjarsafns og Taflfélags Reykjavíkur í blíðskaparveðri í dag. Þetta skemmtilega mót hefur löngum sannað sig sem nokkurs konar upphaf skákvertíðarinnar.
Menn mættu misæfðir til leiks, einkum voru ungu mennirnir sprækir, sumir þeirra nýkomnir frá Ólympíumótinu í Slóvakíu eða öðrum skákmótum á meginlandinu.
Röðuðu þeir sér og í efstu sætin, með þeirri undantekningu að Davíð Kjartansson deildi efsta sætinu með Bárði Erni Birkissyni. Davíð virtist annars stefna í átt að öruggum sigri, en þá lenti hann í klónum á tvíburabræðrunum; hann tapaði fyrir Bárði og gerði jafntefli við Björn bróður hans.
Þeir Davíð og Bárður hlutu 5,5 vinning. Í næstu sæti röðuðu sér -allir með 5 vinninga- nokkrir af efnilegustu skákmönnum landsins; Björn Hólm Birkisson, Oliver Aron Jóhannesson og Vignir Vatnar Stefánsson.
Allir voru glaðir með mótið, enda aðbúnaður með besta móti og teflt í fallegu umhverfi í Árbæjarsafni. Úrslit og lokastöðu má finna á chess-results.