Davíð Kjartansson vann glæsilegan sigur á öðru móti Brim-mótaraðarinnar sem lét sannarlega bíða eftir sér. Mótið hafði tvisvar auglýst þegar glufur höfðu myndast í skákdagatalinu vegna rýmkana á samkomutakmörkum (vegna smitsjúkdómsins Covid-19 sem herjaði á heimsbyggðinni allavega árið 2020 og 2021 kæru framtíðarlesendur) en í nánast beinu framhaldi komu auknar takmarkanir og slá þurfti mótin af. Gárungarnir sögðu að von væri jafnvel á eldgosi eftir að þriðja mótið yrði auglýst! En svo var ekki. Það liðu nefnilega heilir fimm dagar frá því stjórn TR ákvað dagsetningu fyrir þriðja mótið og gos hófst í Geldingsdal!
Davíð hlaut 6.5 vinning af 7 í mótinu, virkilega traust. Þannig tryggði hann sér fyrsta sætið í stigakeppninni, einu stigi fyrir ofan næsta mann, Vigni Vatnar. Í öðru sæti varð Símon Þórhallsson með 5.5 vinning, en hann vann stórmeistara í fyrsta sinn í kappskák í mótinu er hann lagði Helga Áss Grétarsson. Helgi, Lenka Ptacnikova, Vignir Vatnar og Alexander Oliver Mai hlutu 5 vinninga. Gaman að segja frá því að af þeim sex efstu í mótinu eru fjórir þáttakendur í landsliðsflokki sem hefst fljótlega! Það eru Davíð, Helgi, Vignir og Alexander. Þeir sem hækkuðu mest á stigum á mótinu voru þeir Kristján Dagur Jónsson og Matthías Björgvin Kjartansson.
Mótið var haldið helgina 26-28. febrúar undir dyggri stjórn Ríkharðs Sveinssonar og Ólafs Ásgrímssonar. Blönduð at- og kappskákmót eru oft nokkuð vinsæl, og að lokinni síðustu umferð var haldið hefðbundið hraðskákmót. Þar hlaut Vignir Vatnar Stefánsson 8.5 vinning af 9 og nældi sér í eitt auka stig í stigakeppninni. Næstir í hraðskákinni urðu þeir Örn Leó Jóhannsson, Bragi Halldórsson og Jóhann Ingvason með 6.5 vinning, allt grjótharðir hraðskákmenn.
Hlekkur á stöðu og úrslit mótsins.
Hlekkur á stöðu og úrslit hraðskákmótsins.
Hlekkur á frétt fyrsta mótsins.
Staðan í stigakeppninni, samanlögð stig tveggja fyrstu mótanna:
- Davíð Kjartansson 21 stig
- Vigni Vatnar Stefánsson 20 stig
- Lenka Ptacnkikova 14 stig
- Alexander Oliver Mai 10 stig
- Símon Þórhallsson 9 stig
- Helgi Áss Grétarsson 8 stig
- Guðmundur Kjartansson 8 stig
- Jóhann Ragnarsson 6 stig
- Örn Leó Jóhannsson 4 stig
- Elvar Már Sigurðsson 4 stig
- Arnar Heiðarsson 3 stig
- Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 3 stig
- Gauti Páll Jónsson 2 stig
- Jon Olav Fivelstad 2 stig
- Ólafur Kristjánsson 1 stig
- Aron Þór Mai 1 stig
Næsta mót fer fram í TR helgina 23.-25. apríl. Nánari auglýsing um mótið birtist síðar í vikunni!
Upplýsingar um stigakeppnina:
Verðlaunasjóður fyrir samanlagðan árangur í mótunum sex:
Heildarkeppnin:
- 125.000kr.
- 75.000kr.
- 50.000kr.
Efsta skákkonan: 33.000kr.
Efstur U1900 skákstigum, júní listinn 2020: 33.000kr.
Efstur 17 ára og yngri: 33.000
Mótið er reiknað til alþjóðlegra skákstiga.
Oddastig (tiebreaks): 1. Buchholz (-1) 2. Buchholz 3. Innbyrðis úrslit 4. Sonneborn-Berger 5. Oftar svart.
Stigakeppnin virkar þannig að stig eru veitt fyrir efstu 10. sætin. 1 stig fyrir 10. sæti, 2. stig fyrir 9. sæti og svo framvegis. Í 1. sæti í hverju móti verða hins vegar 12 stig veitt. Aukastig fyrir sigur í hraðskákmótinu eftir aðalmótið. Stigakeppnir með sama sniði verða einnig notaðar til að reikna út aukaverðlaunin. Fjögur bestu mót hvers þáttakanda gilda í stigakeppninni
Nokkrar myndir frá aðalmótunum og hraðskákinni: