Dagur og Dagur leiða Skákþingið eftir 5.umferðMargar spennandi viðureignir voru í 5.umferð Skákþings Reykjavíkur sem tefld var síðastliðinn sunnudag. Hart var barist á toppnum sem fyrr og urðu tveir titilhafar að játa sig sigraða.

Á 1.borði mættust alþjóðlegi meistarinn Dagur Arngrímsson (2368) og FIDE meistarinn Guðmundur Gíslason (2315) í hörkuskák. Í þessari orrustu um toppsætið mættust stálin stinn og varð eitthvað undan að láta. Svo fór að lokum að Ísfirðingurinn knái, Gummi Gísla, lagði niður vopn eftir harða rimmu og nokkra vel útfærða leiki Dags. Afar mikilvægur og sterkur sigur hjá Degi í toppbaráttunni.

Á 2.borði mættust TR-ingurinn síungi Þorvarður Fannar Ólafsson (2245) og Rimaskólaundrið Dagur Ragnarsson (2059). Báðir höfðu þeir náð góðum úrslitum fyrr í mótinu og báðir voru þeir taplausir fyrir þessa viðureign. Eftir heiðarlegan bardaga var það Dagur sem vann skákina og trónir hann nú á toppnum ásamt nafna sínum Degi Arngrímssyni. Í þessu samhengi er athyglivert að rifja upp þungbæra kennslustund Dags Ragnarssonar á Evrópumóti ungmenna í Batumi í Georgíu síðastliðið haust þar sem hann varð að gera sér að góðu að skilja 122 skákstig eftir í Batumi. Slík reynsla hefur bugað margan skákmanninn, en Dagur er með höfuðið skrúfað rétt á og hefur honum tekist að vinna með þessa erfiðu reynslu á uppbyggilegan hátt. Afraksturinn er augljós nú eftir fimm skákir í Skákþinginu því piltur hefur 41/2 vinning sem skipar honum á bekk með efsta manni mótsins og skilar honum 72 skákstigum.

Á 3.borði börðust Suðurnesjatröllið Jóhann Ingvason (2126) og Grafarvogsstjarnan Oliver Aron Jóhannesson (2170). Margir reiknuðu vafalítið með sigri Olivers í ljósi hraustlegrar framgöngu hans í mótinu til þessa, en Jóhann er sýnd veiði en ekki gefin. Auk þess berast nú þær fregnir úr undirheimunum að Jóhann sé í stífum æfingum hjá ónefndum stórmeistara. Svo virðist sem þær æfingar séu að skila sér því Jóhann gerði jafntefli við Oliver og hefur því nælt sér í 11/2vinning í síðustu tveimur skákum gegn tveimur ungum og afar efnilegum skákmönnum.

Á 4.borði stýrði sonur Suðurnesjatröllsins, Örn Leó Jóhannsson (2048), hvítu mönnunum gegn stórmeistaranum Stefáni Kristjánssyni (2492). Það er ljóst að þrátt fyrir örlítið hikst í stórmeistaravélinni í 3.umferð að þá mætir Stefán einkar vel undirbúinn til leiks í Skákþingið. Á kaffistofunni veltu menn því fyrir sér hvort Stefán væri að beita heimabrugguðum launráðum í þessari skák gegn Erni Leó. Ekki verður úr því skorið hér en hitt er ljóst að Stefán vann skákina eftir nokkrar sviptingar. Er Stefán sterklega grunaður um að hafa fínpússað byrjanir sínar áður en Skákþingið hófst.

Fullyrða má að Akademíuforinginn Stefán Bergsson (2085) hafi farið eilítið aðra leið en stórmeistarinn í sínum byrjanaundirbúningi fyrir Skákþingið. Erfitt er að finna orð til að lýsa því nánar en ljóst er að orðið fínpússning væri nokkuð villandi í því samhengi. Stefán stýrði svörtu mönnunum gegn stjórnarmanni Taflfélags Reykjavíkur, Þóri Benediktssyni (1895). Þórir lék 1.e4 og Stefán svaraði með 1…f5. Var það mál manna á kaffistofunni að 1…f5 væri að öllum líkindum versti mögulegi svarleikur svarts gegn 1.e4. Enda fór það svo að Þórir vann skákina.

Óvænt úrslit voru framleidd á 6.borði hvar Bjarni Sæmundsson (1895) stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn alþjóðlega meistaranum Sævari Bjarnasyni (2114). Bjarni á það til að ganga berserksgang á skákborðinu og er besta dæmið um það er hann lagði titilhafana Róbert Lagerman (2320) og Dag Arngrímsson (2367) að velli í Reykjavíkurskákmótinu árið 2011, líkt og skákáhugamönnum er vafalítið enn í fersku minni. Sævar fékk nú að finna fyrir vélabrögðum Bjarna sem er til alls líklegur í þessum ham.

Af öðrum úrslitum bar hæst að skákþjálfarinn dagfarsprúði Björn Þorfinnsson (2373) lagði kollega sinn, skákþjálfarann Loft Baldvinsson (1987), að velli á rétt rúmum klukkutíma. Staunton-sérfræðingurinn Jón Viktor Gunnarsson (2433) vann landsliðskonuna geðþekku Hallgerðu Helgu Þorsteinsdóttur (1992) og byrjanaprófessorinn Daði Ómarsson (2256) er aftur kominn á beinu brautina eftir sigur á Dawid Kolka (1829).

Línur eru teknar að skýrast í Skákþinginu. Dagur Arngrímsson og Dagur Ragnarsson leiða mótið með 41/2 vinning en í humátt á eftir þeim með 4 vinninga koma Guðmundur Gíslason, Oliver Aron Jóhannesson, Stefán Kristjánsson, Jón Trausti Harðarson, Jón Viktor Gunnarsson, Bjarni Sæmundsson og Þórir Benediktsson. Aðrir hafa minna.

Í 6.umferð verður risaslagur á 1.borði hvar Stefán Kristjánsson hefur hvítt gegn Degi Arngrímssyni. Á 2.borði er ekki síðri bardagi þar sem Dagur Ragnarsson hefur hvítt gegn Jóni Viktori Gunnarssyni. Athygliverð rimma er jafnframt á 4.borði en þar mætast Rimaskólabræðurnir Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausti Harðarson í baráttu um Grafarvogskrúnuna. Það mun eitthvað ganga á í skáksal Taflfélags Reykjavíkur þegar 6.umferð verður tefld og mörgum spurningum ósvarað þar til þá. Munu nafnarnir halda toppsætinu eða er Dagur að kveldi kominn? Mun nýr Dagur upp rísa? Hvaða afbrigði verður fínpússað á eldhúsborði stórmeistarans fyrir umferðina? Verður Grafarvogur samur eftir slag Olivers og Jóns Trausta? Hvað leikur Akademíuforinginn í 1.leik?

Ekki missa af fjörinu. Klukkur verða ræstar á slaginu 19:30 á miðvikudagskvöldið næstkomandi.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Dagskrá og upplýsingar
  • Myndir
  • Skákirnar
  • Skákþing Reykjavíkur 2014
  • Skákmeistarar Reykjavíkur
  • Mótstöflur