Daði öruggur á Þriðjudagsmóti



Fyrsta Þriðjudagsmót nóvembermánaðar fór fram síðastliðinn þriðjudag og var öflugt og hart barist. Stigahæstu menn voru þeir Daði Ómarsson og Einar Kristinn Einarsson og það var að vonum að þeir tefldu úrslitaskákina í síðustu umferð. Reyndar var Daði þá með fullt hús en Einar hafði gert jafntefli við Gauta Pál Jónsson í umferðinni á undan. Svo fór að Daði sigldi nokkuð öruggum sigri í höfn og vann því mótið með fullu húsi en í öðru sæti varð sigurvegari vikunnar á undan, áðurnefndur Gauti Páll. Óli Róbert Hediddeche hefur verið duglegur á Þriðjudagsmótunum í haust og eljan skilar sér yfirleitt að lokum; 3. sætið var hans og jafnframt inneign hjá Skákbúðinni í verðlaun fyrir bestan árangur samkvæmt frammistöðustigum á mótinu.
Öll úrslit og stöðu mótsins má annars nálgast hér á chess-results.
Ekki verður hefðbundið Þriðjudagsmót n.k. þriðjudag (9. nóvember) því þá verður seinna kvöldið á Atskákmóti taflfélaga. Því verður næsta Þriðjudagsmót 16. nóvember og þá að venju klukkan 19:30 í félagsheimili TR, Faxafeni 12.