Tölvuleikjafyrirtækið CCP sem framleiðir og rekur fjölspilunarleikinn Eve online færði Taflfélagi Reykjavíkur í gær að gjöf öflugan skjávarpa, fartölvu af nýjustu gerð auk peningastyrks.
Það var Eldar Ástþórsson frá CCP sem afhenti búnaðinn á fjölmennri barna- og unglingaæfingu félagsins og mun hann nýtast einkar vel við þjálfun og kennslu í öflugu barnastarfi félagsins. Vignir Vatnar Stefánsson Unglingameistari T.R. 2012, sem nýkominn er af Heimsmeistaramóti barna og unglinga í Slóveníu og Donika Kolica, Stúlknameistari T.R. 2012, veittu búnaðinum viðtöku fyrir hönd félagsins.
Taflfélag Reykjavíkur kann CCP hinar bestu þakkir fyrir stuðninginn, sem mun koma félaginu og iðkendum þess mjög vel um ókomna framtíð.