Blautur koss frá Mysliborz



Titillinn vísar ekki til hennar Svetlönu okkar, heldur veðurfarsins sem snögglega breyttist við upphaf 7. umferðar í morgun.  Hitastigið snögglækkaði og himnarnir opnuðust og allir fengu yfir sig gusurnar á leiðinni á skákstaðinn.

 

Í gærkvöldi héldum við smá fund um mótið.  Piltarnir geta lært mikið af þessu móti, t.a.m. er athyglisvert að allar 50-50 skákir hafa farið okkur í óhag.

 

Ég nefni t.d. skák Daða við Zezulkin, þar sem Daði gat krafist jafnteflis í endataflinu.

Skákir Matta við Cherednichenko og Stala – en í báðum tilfellum spilaði tímaskortur inn í.

Skákir Villa við Stala og Smirnov.

Þetta eru bara nokkur dæmi.

 

Það virðist eðlilegt að draga þá ályktun að um reynsluleysi sé að ræða.  Hvað er til ráða?  Ég reifaði við nokkra strákana í morgun að við myndum setja til hliðar svo sem 10 klst. af þessum tveimur dögum sem við höfum í Berlín til að fara yfir mikilvægustu skákirnar.

 

Ég vona að þetta fyrirkomulag gangi vel, því sveitin þarf á því að halda að læra af þessu móti og mæta þéttari til leiks í Búlgaríu eftir 5 daga, en þar bíður okkar Evrópumót skólasveita.

 

Þar munum við hitta fyrir mjög þétta sveit frá Litháen (sigurvegarinn frá í fyrra), Rúmena sem við vitum ekkert um, Hvít-Rússa og svo höfum við heyrt að gestgjafarnir ætli sér stóra hluti í ár.  Mér finnst líklegt að mótið verði sterkara í ár en í fyrra, en í fyrra vorum við í keppninni um fyrsta sætið allan tímann.

 

Þetta gæti orðið síðasta fréttin í bili.  Ekki er víst að ég nái að skýra frá úrslitum áður en mótshaldararnir slökkva á netinu.  Síðan veit ég af fenginni reynslu að internetsambandið í Varna er upp og ofan.  Við verðum bara að sjá til hvað ég get komið með miklar fréttir þaðan.

 

Torfi Leósson