Alþjóðlegi meistarinn, Björn Þorfinnsson, stöðvaði loks sigurgöngu Hjörvars Steins Grétarssonar þegar hann sigraði í viðureign þeirra í fimmtu umferð KORNAX mótsins, sem fram fór í gærkveldi. Björn er þar með fyrsti Íslendingurinn sem leggur Hjörvar í kappskákmóti síðan í janúar 2010. Síðastur til að gera það var Ingvar Þór Jóhannesson, einmitt á KORNAX mótinu 2010.
Skák Hjörvars og Björns var í járnum lengst af og tiltölulega róleg þó útlit hafi verið fyrir að Björn myndi ná kóngsókn. Svo var þó ekki og skiptist upp á liði og hafði Björn jafnvel ýfið betri stöðu þegar í endatafl var komið. Báðir höfðu riddara og hrók ásamt nokkrum peðum þar sem menn Björns voru betur staðsettir en menn Hjörvars. Jafntefliskeimur var þó af stöðunni þar til Hjörvar lék mjög ónákvæmum hróksleik sem leiddi til þess að hann lenti í mátneti. Við það tapaði hann riddaranum og fórnaði síðan hróknum fyrir riddara og nokkur peð, en þá var staðan koltöpuð og niðurstaðan ljós.
Viðureignum þriggja næstu borða lauk öllum með jafntefli en athygli vekur að á fyrstu fimmtán borðunum vann hvítur aðeins eina viðureign. Á öðru borði mættust fyrrgreindur Ingvar og Sverrir Þorgeirsson í maraþon skák sem lauk ekki fyrr en eftir 87 leiki. Framan af var staðan mjög jöfn en eftir mikil uppskipti fór skákin út í endatafl þar sem hvor hafði sjö peð þar sem staða þeirra hjá Ingvari var það slæm að Sverrir var í raun með gjörunnið tafl. Sökum tímahraks missti hann þó af réttu leiðinni og fór svo að lokum að báðir vöktu upp drottningu og eftir mikinn barning sættust þeir á skiptan hlut.
Sigurbjörn Björnsson og Hrafn Loftsson mættust á þriðja borði í skák sem bauð upp á mjög sérstaka stöðu eftir Kan afbrigði Sikileyjarvarnar. Á einum tímapunkti hafði Sigurbjörn bæði stakt tvípeð og stakt þrípeð en sóknarfæri og nokkuð betra tafl í staðinn. Hrafn varðist þó vel og jafntefli var niðurstaðan eftir 30 leiki þegar Hrafn þráskákaði Sigurbörn.
Fjórða borð skipuðu Tómas Björnsson og Snorri G. Bergsson. Skákin var tilþrifalítil og mjög óvænt jafntefli var niðurstaðan eftir 19 leiki þegar þrátefli átti sér stað.
Á fimmta borði tefldu Halldór B. Halldórsson og Jóhann H. Ragnarsson. Sú skák var vægast sagt snörp og skemmtileg. Eftir undarlega byrjun þar sem allt var í háalofti og taflmenn út og suður um allt skákborð var Halldór kominn með nokkuð betri stöðu. Slæmir afleikir urðu þó til þess að taflið snérist mjög skyndilega og Jóhann fékk óstöðvandi sókn sem leiddi til uppgjafar Halldórs eftir 25 leiki. Góður sigur hjá Jóhanni sem er líkast til að eiga sitt besta mót í langan tíma.
Annars var lítið um óvænt úrslit í fimmtu umferðinni en eftir hana leiðir Björn með 4,5 vinning og þéttur pakki tíu keppenda kemur næstur með 4 vinninga. Það stefnir því í gríðarlega spennandi seinni hluta en sjötta umferð fer fram á föstudagskvöld og hefst hún kl. 19.30.
Rétt er að minna á að sýnt er beint frá skákum fimm efstu borðanna og allar skákir eru aðgengilegar skömmu eftir hverja umferð. Ljúffengar kaffiveitingar eru í boði gegn vægu gjaldi og allir skákunnendur eru velkomnir í Skákhöll T.R. að Faxafeni 12.
Allar nánari upplýsingar, s.s. úrslit og stöðu, má nálgast á heimasíðu mótsins.
- KORNAX mótið