Fimmta og síðasta mót Bikarsyrpu TR þennan veturinn fór fram um síðastliðna helgi. Keppendur voru hátt í 30 talsins, flestir ef ekki allir komnir með nokkra reynslu af þátttöku í skákmótum. Að venju voru tefldar sjö umferðir og urðu úrslit þau að Benedikt Briem varð efstur með 6 vinninga, Árni Ólafsson varð annar með 5,5 vinning og þriðji með 5 vinninga varð Alexander Már Bjarnþórsson. Rayan Sharifa og Ísak Orri Karlsson hlutu einnig 5 vinninga en Alexander hlaut bronsið eftir stigaútreikning.
Að loknu móti voru aukinn heldur veitt verðlaun fyrir samanlagðan vinningafjölda í mótunum fimm í vetur. Þar varð hlutskarpastur Fjölnispilturinn knái, Magnús Hjaltason, en hann krækti í alls 22,5 vinning. Glæsilega gert hjá Magnúsi sem missti ekki úr skák og hefur verið afar iðinn við kolann á reitunum 64 að undanförnu. Hlýtur hann að launum veglegan farandbikar. Þrír efstu félagsmenn Taflfélags Reykjavíkur samanlagt fengu afhend viðurkenningarskjöl og inneign í einkatíma hjá einhverjum af alþjóðlegu meisturum félagsins. Þar var fyrrnefndur Árni hlutskarpastur, Batel Goitom Haile varð önnur og í þriðja sæti hafnaði Kristján Dagur Jónsson.
Lítum sem snöggvast á gang mála í móti helgarinnar. Fyrsta umferð hófst venju samkvæmt seinnipart föstudags og eins og gjarnan er í fyrstu umferð var getumunur keppenda nokkur og margar skákirnar því snarpar. Allir áttu keppendur þó sameiginlegt að vera feykilega einbeittir við skákborðin og vakti atgervi þeirra á mótsstað töluverða athygli mótsstjórnar. Var sannast sagna líkt og um væri að ræða skákmenn með margra áratuga reynslu. Algjörlega til fyrirmyndar.
Segja má að úrslit fyrstu umferðar hafi verið nokkuð eins og búast mátti við en þó má nefna góðan sigur Einars Tryggva Petersen á Bjarti Þórissyni í skák þar sem sá síðarnefndi var fullrólegur í uppstilllingu sinna manna. Einar nýtti sér það vel, náði virkri stöðu og landaði góðum vinningi í kjölfarið. Í annari umferð mættust m.a. nafnarnir Benedikt Briem og Benedikt Þórisson á efsta borði og varð úr spennandi orrusta. Stilltu báðir liðsmönnum sínum vel upp en í jöfnu og rafmögnuðu miðtafli gaf BÞ BB færi á að vinna skiptamun sem BB var ekki lengi að nýta sér. Sigldi hann sigrinum örugglega í höfn eftir það.
Í þriðju umferð sigraði Benedikt Briem Batel Goitom og var því orðinn efstur með 3 vinninga. Að loknum fjórðu og fimmtu umferð var Breiðablikspilturinn enn efstur þrátt fyrir að taka yfirsetu í fjórðu umferð og hafði nú 4,5 vinning. Alexander, Magnús og Adam Omarsson komu næstir með 4 vinninga. Viðureign Alexanders og Magnúsar í fimmtu umferð stóð í næstum 2,5 klst og var spennan hreinlega rafmögnuð. Lauk bardaganum í afar spennandi og lærdómsríku hróksendatafli þar sem Alexander varðist vel og varð jafnteflið ekki umflúið.
Í sjöttu og næstsíðustu umferð gerðu Magnús og Benedikt Briem sannkallað stórmeistarajafntefli á efsta borði þar sem allt virtist vera stál í stál í miðtaflinu þó svo að fullmikið væri eftir af skákinni að mati dómara. Á sama tíma vann Alexander Adam og Árni lagði Tómas Möller. Þar með voru Benedikt og Alexander efstir og jafnir með 5 vinninga en Magnús og Árni komu næstir með 4,5 vinning.
Æsispennandi lokaumferð hófst seinnipart sunnudags og þar áttust við í úrslitaviðureign Alexander og Benedikt þar sem sá síðarnefndi hafði að lokum sigur og tryggði sér þar með efsta sætið í mótinu. Á sama tíma lagði Árni Magnús og skaust þar með upp í annað sætið en Alexander varð þriðji eins og fyrr segir.
Enn einni skemmtilegri og lærdómsríkri skákhelgi er því lokið og viljum við þakka öllum þeim krökkum sem voru með okkur í Bikarsyrpunni í vetur og ekki síst foreldrum og forráðamönnum því það er meira en að segja það að leggja heila helgi undir svo “massífa” dagskrá sem mót Bikarsyrpunnar eru. Hinsvegar teljum við mótin vera gríðarlegan lærdóm fyrir unga skákmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref á framabraut skáklistarinnar og teljum því þessum tíma mjög vel varið.
Það er ánægjulegt að sjá þátttöku stigalausra keppenda aukast á ný og þá eykst þátttaka stúlkna í mótunum hægt og sígandi en þær viljum við sjá við skákborðin ekki síður en alla “gaurana”. Við bíðum spennt eftir næsta tímabili og hlökkum til nýrrar Bikarsyrpu sem hefst að öllu óbreyttu í september. Þangað til þá hvetjum við ykkur krakkar að æfa ykkur vel og reglulega, helst eitthvað á hverjum degi – það þarf ekki að vera langur tími í senn. Jöfn og góð ástundun er alltaf árangursríkust.
Sjáumst í haust!
Öll úrslit í mótum Bikarsyrpunnar í vetur: Mót 1, Mót 2, Mót 3, Mót 4, Mót 5
Myndir frá mótunum hér að neðan