Unglingameistaramót Reykjavíkur sem og Stúlknameistaramót Reykjavíkur fór fram í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur sunnudaginn 23. febrúar. Mótið var opið fyrir börn á grunnskólaaldri.
Þrenn verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin í báðum flokkum svo og aldursflokkaverðlaun í hvorum flokki fyrir sig, fyrir hvert ár frá 2004 til 2014. Þau sem eru búsett í Reykjavík eða eru félagar í reykvískum taflfélögum tefldu um titilinn Unglingameistari Reykjavíkur 2020 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2020. Tefldar voru 7 umferðir með umhugsunartímanum 10+5. Mótið var reiknað til atskákstiga. Þátttakendur voru alls 51 og var mótið vel skipað.
Í Unglingameistaramótinu (opna flokknum) tefldu 42 krakkar, ein stúlka og 41 drengur. Bæði voru þarna krakkar sem eru gífurlega rútíneruð í þátttöku í skákmótum og æfa skák að staðaldri, svo og þau sem voru að stíga sín fyrstu skref í skákmóti sem þessu. Keppnin var jöfn allt til enda. Svo fór að eina stúlkan sem tefldi í þessum flokki, TR-stúlkan Batel Goitom Haile vann 6 skákir og gerði eitt jafntefli og varð þar með efst í mótinu og er því Unglingameistari Reykjavíkur 2020. Gunnar Erik Guðmundsson hreppti silfrið með 6 vinninga og Benedikt Briem bronsið með 5,5 vinning.
Í Stúlknameistaramótinu tóku 9 stelpur þátt. Það var TR-stúlkan Iðunn Helgadóttir sem landaði sigrinum í mótinu með 6,5 vinning. Hún gerði einungis eitt jafntefli við Söru Sólveigu Lis, sem lenti í 2. sæti með 6 vinninga. Í 3. sæti kom svo Anna Katarina Thoroddsen, stúlknameistari síðasta árs, með 5,5 vinning. Það er því Iðunn Helgadóttir sem er Stúlknameistari Reykjavíkur 2020. Hún er vel að þessum sigri komin, enda æfir hún skák af miklum áhuga og teflir nánast í öllum þeim skákmótum sem í boði eru!
Báðir titilarnir, Unglingameistari Reykjavíkur 2020 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2020 fóru til Taflfélags Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta skipti sem stúlka vinnur titilinn Unglingameistari Reykjavíkur og því söguleg stund! Báðar TR-stúlkurnar, Batel og Iðunn, eru þaulvanar að tefla á skákmótum og eru hvetjandi fyrirmyndir fyrir krakka, stelpur og stráka, að halda áfram að tefla!
Skákmótið fór mjög vel fram. Í upphafi móts vöktu skákstjórar athygli á því að framkvæmdir væru í gangi í salnum, þar sem verið var að einangra stóra, gluggalausa vegginn. Vinnusvæðið fór ekki fram hjá neinum og allir þátttakendurnir ætluðu að gera sitt besta við að tefla við þessar aðstæður. Smiðurinn læddist inn í miðju móti og setti hverja einangrunarplötuna á fætur annarri á sinn stað og áhorfendur höfðu það á orði, að hljóðvistin batnaði með hverri mínútunni! Aðeins einn sími hringdi, en þar sem að það var sími smiðsins, gátu allir haldið áfram að tefla, án þess að verða meint af. Smiðshöggið á skákmótinu rak svo Birna okkar með því að bjóða upp á veitingar sem pössuðu fyrir alla, hvort sem þar fóru hungraðir keppendur, konudagskonur, eða bolludagsunnendur.
Þó nokkur fjöldi foreldra og systkina fylgdist með og skákmótið gekk samkvæmt tímaáætlun og því lauk um kl. 17.
Sjá heildarúrslit og aldursflokkaverðlaun hér að neðan.
Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þátttakendum og aðstandendum fyrir skemmtilegt skákmót!
Heildarúrslit í Unglingameistaramótinu (opna flokknum):
Aldursflokkaverðlaun:
2013: Birkir Hallmundarson
2012: Jón Louie Thoroddsen
2011: Arnar Freyr Orrason
2010: Kjartan Halldór Jónsson
2009: Matthías Björgvin Kjartansson
2008: Arnar Gauti Helgason
2007: Batel Goitom Haile
2006: Benedikt Briem
Heildarúrslit í Stúlknameistaramótinu:
Aldursflokkaverðlaun:
2012: Emilía Embla Baldvinsdóttir Berglindardóttir
2011: Fanndís Eva Gísladóttir
2010: Guðrún Fanney Briem
2008: Anna Katarina Thoroddsen
2007: Iðunn Helgadóttir
Mótshaldari var Taflfélag Reykjavíkur. Skákstjórar voru Torfi Leósson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Birna Halldórsdóttir sá um veitingar á meðan mótinu stóð.