Barna Blitz: Róbert Luu og Benedikt Þórisson komnir áfram



Hún var óvenjuleg Laugardagsæfingin í gær því hún var jafnframt undankeppni í svokölluðu Barna Blitz sem haldið er samhliða Reykjavíkurskákmótinu. Tvö sæti voru í boði fyrir þau börn sem eru fædd árið 2004 eða síðar. Spennan var því enn meiri en venjulega á þessum vel sóttu æfingum.

Fyrirfram var búist við sterkari þátttakendum en yfirleitt mæta á þessar æfingar. Róbert Luu var sá sterkasti að þessu sinni en Róbert stundaði Laugardagsæfinguna grimmt er hann tók sín fyrstu skref í skáklistinni. Róbert hefur síðustu ár náð langt í Barna Blitz keppninni og var því til alls líklegur, enda langstigahæstur keppenda.

Svo fór að Róbert vann mótið með 6 vinninga í 7 skákum. Hann varð þó að sætta sig við tap gegn Benedikt Þórissyni er hann uggði ekki að sér í vörninni og gleymdi að lofta út fyrir kónginn. Benedikt hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu og þessi sigur tryggði honum 2.sætið með 5,5 vinning. Benedikt fylgir því Róberti í úrslit Barna Blitz sem fram fer laugardaginn 22.apríl.

Skákstjóri var Gauti Páll Jónsson.

IMG_8871

Róbert Luu vann undankeppni Barna Blitz hjá TR.

 

IMG_8862

Benedikt Þórisson tryggði sér sæti í úrslitum Barna Blitz.