Aron Þór Mai úr T.R. sigraði á öðru móti Bikarsyrpunnar sem fram fór um helgina og lauk með í gærkvöldi. Hann vann þá Guðmund Agnar Bragason í hörkuskák og endaði með 4.5 vinning af 5 mögulegum.
Hann gerði jafntefli í viðureign sinni við Mikhailo Kravchuk T.R. sem endaði í öðru sæti, einnig með 4.5 vinninga en lægri á stigum. Jafnara gat það vart orðið. Mikhailo sem sigraði á fyrsta mótinu í syrpunni hefur forystu samanlagt.
Alec Elías Sigurðarson úr Hugin og Jón Þór Lemery úr T.R. komu svo hnífjafnir í mark í þriðja til fjórða sæti með fjóra vinninga. Þrefaldur stigaútreikningur dugði ekki til að gera upp á milli þeirra, og því hljóta þeir báðir bronsið!
Taflfélag Reykjavíkur óskar þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn og vill einnig þakka hinum 30 sem tóku þátt í þessu vel heppnaða öðru móti Bikarsyrpunnar.
Bikarsyrpa Taflfélagsins hefur fengið frábærar viðtökur og þar keppa jafnt reynsluboltar sem og þeir krakkar sem eru að stíga sín fyrstu spor í kappskákmótum. Tímamörkin 30 mínútur +30 sek á leik henta þessum hóp afar vel. Mótið uppfyllir öll skilyrði alþjóðaskáksambandsins FIDE og er reiknað til alþjóðlegra og íslenskra skákstiga.
Þriðja mótið í Bikarsyrpunni mun fara fram fljótlega eftir áramót, en reiknað er með að alls verði mótin fjögur í syrpunni.