Arnar Gunnarsson hlutskarpastur á Meistaramóti TRUXVA



Alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson sigraði á afar glæsilegu Hraðskákmeistaramóti Truxva sem fram fór annan í Hvítasunnu, þeim merkilega degi. Arnar fékk 10 vinninga af 11 mögulegum sem verður að teljast mjög gott á svo sterku móti.

20170606_233905

Það hafði lengi verið í umræðunni hjá Truxva, ungliðahreyfingu TR, að halda mót þar sem sterkum TR-ingum yrði boðið að taka þátt ásamt Truxvunum. Eftir miklar samningaviðræður milli undirritaðs og Kjartans Maack formanns sem sá einnig um mótshaldið, varð lokaniðurstaðan þessi: 11 umferðir með  tímamörkum 4 plús 2, öllum úr ungliðaheyfingu TR boðin þáttaka auk allra TR-inga með yfir 2000 stig eða þá TR-inga sem einhverntíman hafa komist yfir 2000 stig svo þeir væru nú ekki skildir útundan. Síðan fengu fjórir öflugir utanfélagsmenn að fljóta með til að gera mótið enn sterkara og skemmtilegra! Það voru þeir IM Einar Hjalti Jensson, FM Dagur Ragnarsson, FM Oliver Aron Jóhannesson og Jón Trausti Harðarson. Þannig fór að þeir Einar Hjalti og Oliver lentu einmitt í öðru og þriðja sæti með 8.5 og 8 vinninga.

20170605_195547

Mótið var vel skipað sem sést á þeim fjórum alþjóðlegu meisturum og þremur Fidemeisturum sem tefldu og öllum þeirra sem freistuðu þess að hækka hraðskákstigin sín, en þau eru afar mikilvæg í augum flestra skákmanna.

Mótið einkenndist af gríðarlegum sviptingum svo það lá við að Swiss Manager réði ekki við öll óvæntu úrslitin! Arnar sýndi þó mikinn stöðugleika og tapaði bara gegn Einari, en Einar sem tapaði í fyrstu umferð náði Arnari að vinningum með sigrinum. Arnar vann hins vegar allar síðustu skákirnar og tryggði sér þannig sigur. Veitt voru bókaverðlaun fyrir efstu tvö sæti þeirra með yfir 2000 stig og efstu tvo með undir 2000 stig, en það eiga víst einhverjir nokkrir Truxvar eftir að rjúfa þann múr, en þeim fer ört fækkandi (eða fjölgandi ef undirritaður tekur sig ekki á!) Verðlaunahafar voru þeir Arnar, Einar, Hilmir Freyr Heimisson og Björn Hólm Birkisson. Hilmir og Björn stóðu sig mjög vel og Hilmir hækkar um heil 108 hraðskákstig, eftir að hafa unnið meðal annarra þá bræður Björn og Braga Þorfinnssyni. Ljóst að það verður algjör óþarfi að halda upp á jólin á hans heimili.

20170605_195605

Mótið fór vel fram og mikil stemning var í Taflfélaginu þetta kvöld. Hver veit nema mót af svipuðu sniði verði haldið aftur, þar sem unglingarnir í TR fá tækifæri til að spreyta sig gegn eldri og reyndari skákmönnum. – Jú! Eða öfugt!

Gauti Páll Jónsson

Lokastöðu og öll úrslit má nálgast á chess-results.