Arnar Gunnarsson efstur á vel skipuðu Meistaramóti TRUXVA



Alþjóðlegi meistarinn Arnar Erwin Gunnarsson varð einn Meistaramót TRUXVAefstur á æsispennandi Meistaramóti Truxva sem fram fór þann 2. maí. Hann hlaut 8,5 vinning af 11 mögulegum. Þetta er í annað sinn sem Arnar vinnur mótið en hann vann einnig þegar það var haldið í fyrsta sinn árið 2017. Guðmundur Kjartansson vann mótið 2018.

Í öðru sæti varð Íslandsmeistarinn Helgi Áss Grétarsson með 8 vinninga. Fimm skákmenn skiptu bróðurlega með sér þriðja sætinu með 7,5 vinning. Það voru þeir Björn Þorfinnsson, Guðni Stefán Pétursson, Bragi Þorfinnsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Dagur Ragnarsson. Mótið hefur vaxið og dafnað og var nú í fyrsta sinn gert opið öllum. Af 38 keppendum má nefna þrjá hástökkvara í stigasöfnun. Það voru þeir Guðni Stefán (+51), Pétur Pálmi Harðarson (+59) og Benedikt Þórisson (+51). Guðni gerði sér til að mynda lítið fyrir og vann báða stórmeistarana sem tóku þátt, þá Helga Áss og Braga Þorfinnsson. Pétur Pálmi, sem er í mikilli framför, vann svo FIDE meistarann Dag Ragnarsson.

 Alexander Oliver Mai, sem hlaut 5,5 vinning, var efstur Truxva, sem sagt efstur TR-inga 16 ára og yngri. Áðurnefndur Pétur Pálmi hlaut 6,5 vinning og varð efstur skákmanna með minna en 2000 skákstig. Alexander Oliver og Pétur Pálmi hlutu bók í verðlaun úr skákbóksölu Stefáns Bergssonar og forláta viðurkenningarskjöl frá 9.áratug síðustu aldar.

Þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið og búast má við að það verði með svipuðu sniði að ári. Mótið er á góðri leið með að verða eitt sterkasta hraðskákmót skákársins og skákmenn eru því hvattir til að fjölmenna á Meistaramóti Truxva 2020.