Andrey Prudnikov sigrar enn á Þriðjudagsmóti



Eins og oft gerist, voru tveir efstir og jafnir fyrir síðustu umferð á Þriðjudagsmóti vikunnar, því þriðja (af fimm) í ágústmánuði og tefldu hreina úrslitaskák. Báðir vanir þessum aðstæðum; þeir Andrey Prudnikov og Kristófer Orri Guðmundsson. Andrey hafði betur að þessu sinni og sigraði því með fullu húsi. Baráttan var hins vegar hörð hjá þeim sem næstir voru og lauk með að fjórir skákmenn voru með 4 vinninga en af þeim var Páll G. Jónsson (sem vann Anton Reyni Hafdísarson í síðustu umferð; sjá mynd) stigahæstur og því í 2. sæti  en Kristófer Orri síðan í 3. sæti. Verðlaun fyrir bestan árangur skv.  frammistöðustigum fékk hins vegar Stefán Þórarinsson sem var í 32. sæti keppenda skv. upphafsröðun og stigalaus en náði hins vegar 14. sætinu með 3 vinninga.

Stigahástökkvari mótsins var hins vegar Tómas Bogi Bjarnason sem hækkaði um rúm 70 stig en alls voru fjórir keppendur sem bættu við sig 40 stigum eða meira.

Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá hér.

Næsta atskákmót verður þriðjudagskvöldið 22. ágúst og hefst að venju kl. 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Tefldar eru fimm umferðir, tímamörk eru 10 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma.