Það mættu 37 skákmenn til leiks þriðjudaginn 8. ágúst í TR. Sagan endurtók sig frá því þriðjudaginn þar áður, en þeir Gauti Páll og Andrey voru einir efstir með fjóra vinninga áður en þeir mættust í lokaumferðinni. Andrey hafði sigurinn eftir miklar tilfæringar og tryggði sér þar með sigur í mótinu og getur farið að casha þokkalega út í Skákbúðinni. Tveir aðrir hlutu fjóra vinninga ásamt Gauta, þeir Kristófer Orri Guðmundsson og Arnar Ingi Njarðarson. Arnar stóð sig vel og á líklega talsvert inni sem skákmaður.
Árangursverðlaunin hlaut Róbert Örn Vigfússon, 22 ára strákur (allir sem eru yngri en ég eru strákar) sem hefur byrjað að tefla aftur undanfarið eftir hlé. Gaman að því! Róbert fékk 3.5 vinning og græðir fyrir það 36.4 stig.
Næsta Þriðjudagsmót verður þann 15. ágúst klukkan 19:30 í félagsheimili TR Faxafeni 12. Gott að mæta tímanlega.
Ritari: Gauti Páll