Haustmótið hafið



HTR_2015_R1-13

Alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson sigraði Gylfa Þórhallsson í fyrstu umferð.

Haustmót Taflfélags Reykjavíkur hófst á sunnudaginn en mótið er hið 82. í röðinni.  Keppendur eru 49 talsins og er keppt í þremur tíu manna lokuðum flokkum ásamt opnum flokki þar sem 19 keppendur, flestir af yngri kynslóðinni, leiða saman hesta sína.

Í A-flokki er alþjóðlegi meistarinn Bragi Þorfinnsson (2414) stigahæstur keppenda en Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson (2392) er ekki langt undan en sá síðarnefndi hefur farið mikinn undanfarin misseri og er líklegur til að veita Braga harða keppni.  Stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova (2235), kemur næst en Lenka er til alls vís og þegar hún er í stuði er erfitt að eiga við hana.

Fide meistararnir Benedikt Jónasson (2230) og Oliver Aron Jóhannesson (2198) eru næstir röðinni og þá Björgvin Víglundsson (2169) og Örn Leó Jóhannsson (2123) sem hefur náð ágætum árangri eftir að hann hóf taflmennsku á nýjan leik eftir nokkurt hlé.

Áttunda sætið í stigaröðinni skipar enginn annar en alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason (2108) en hann hefur teflt flestar kappskákir allra Íslendinga og er með eindæmum eljusamur í íslensku skáklífi.  Honum fylgir síðan annar af reynslumestu skákmönnum þjóðarinnar, Gylfi Þórhallsson (2080), og að lokum hinn eitilharði og athyglisverði Stefán Bergsson (2067) sem kallar ekki allt ömmu sína á reitunum 64.

Líklegt verður að teljast að baráttan muni standa á milli Braga og Einars Hjalta og raunar hófu þeir báðir leik með sigri; Bragi sigraði Gylfa nokkuð örugglega en Einar þurfti að hafa nokkuð fyrir sigrinum á Björgvini þar sem sá síðarnefndi varðist vel peði undir en í snúnu hróksendatafli fórnaði Einar tveimur peðum fyrir hættulegan frelsingja sem reyndist of stór biti fyrir Björgvin.

Önnur úrslit urðu þau að Örn Leó lagði Stefán þrátt fyrir að lenda í tímahraki, og Oliver hafði betur gegn Lenku í lengstu skák umferðarinnar.  Eftir mikla baráttu og langt og strangt drottningarendatafl náði Oliver að kreista fram sigur gegn landsliðskonunni.  Vel gert og góð byrjun hjá hinum unga Oliver.  Stórviðureign Sævars og Benedikts var frestað.

HTR_2015_R1-7

Guðlaug Þorsteinsdóttir er margreynd og hóf leik með sigri.

Líkt og svo oft áður er B-flokkur afar þéttur og skemmtilegur en aðeins munar tæpum 180 Elo-stigum á stigahæsta keppandanum, Jóhanni H. Ragnarssyni (2033), og þeim stigalægsta, Agnari Tómasi Möller (1854).  Það er ánægjulegt að sjá Jóhann aftur við skákborðið en Jói er gríðarlega reynslumikill, grótharður og erfiður við að eiga þegar sá gállinn er á honum.

Svo fór að í fyrstu umferð hafði Jóhann betur gegn öðrum af tvíburunum ógurlegu, Bárði Erni Birkissyni (1854), þar sem sá fyrrnefndi tefldi sína alræmdu Caro-Kann byrjun afar vel.  Guðlaug Þorsteinsdóttir (1934) sigraði Snorra Þór Sigurðsson (1956) í spennandi skák þar sem Snorri fórnaði manni fyrir sterka peðamiðju og öflugt biskupapar.  Guðlaug tefldi þó vel og náði að komast út í endatafl þar sem hún hafði loks sigur.

Skákkennarinn góðkunni, Siguringi Sigurjónsson (1989), knésetti Hörð Aron Hauksson (1958) og þá sömdu Agnar Tómas og Björn Hólm Birkisson (1907) jafntefli í rólegri skák.  Viðureign Ólafs Gísla Jónssonar (1926) og Vignis Vatnars Stefánssonar (1921) var frestað.

HTR_2015_R1-6

Aron Þór Mai stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn Herði Jónassyni.

Stigamunur í C-flokki er öllu meiri þar sem munar rúmlega 350 Elo-stigum en stigahæst er Veronika Steinunn Magnúsdóttir (1843) og stigalægstur er Héðinn Briem (1488).  Veronika er sigurstranglegust í flokknum en margir eiga eftir að veita henni verðuga keppni enda flokkurinn skipaður mörgum ungum og gríðarlega efnilegum skákmönnum.

Af úrslitum fyrstu umferðar má fyrst nefna virkilega góðan og öruggan sigur hins unga Róberts Luu (1490) á Ingvari Agli Vignissyni (1549) en þess má geta að Róbert er fæddur árið 2005 og á því sannarlega framtíðina fyrir sér í skáklistinni.  Jafnaldri Róberts, hinn stórefnilegi Óskar Víkingur Davíðsson (1742) gerði jafntefli við Heimi Pál Ragnarsson (1712) en Aron Þór Mai (1502), sem hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu, hafði betur gegn Herði Jónassyni (1551) eftir að Hörður hafði náð rýmra tafli eftir byrjunina.  Þá sigraði Veronika Héðinn nokkuð örugglega eftir að sá síðarnefndi fórnaði manni fyrir fulllitlar bætur.

HTR_2015_R1-4

Hinn ungi og efnilegi Alexander Björnsson veit mikilvægi þess að nýta tímann vel.

Í opna flokknum verður baráttan vafalítið hörð þar sem ekki munar mörgum stigum á stigahæstu keppendum.  Af úrslitum fyrstu umferðar má nefna jafntefli Björgvins Kristbergssonar (1127) og Þorsteins Magnússonar (1411) þar sem hinn brögðótti Björgvin fórnaði mannskap fyrir stórsókn og missti raunar af vinningsleið í lokin.

Miklar sviptingar eru gjarnan í viðureignum opna flokksins og má til að mynda nefna baráttu Guðmundar Agnars Bragasonar (1354) og Stefáns Orra Davíðssonar (1103) þar sem sá fyrrnefndi lék illa af sér með unna stöðu en Stefán svaraði með því að leika drottningunni af sér.  Það er sannarlega stutt á milli í skákinni og hver barátta er lærdómsrík.

Alltof lítil tímanotkun er algeng hjá yngstu kynslóðinni sem kemur niður á gæðum taflmennskunnar en um leið og lærist að nota tímann betur verða skákirnar betri.  Það sást vel í viðureign hins unga Alexanders Björnssonar (1168) og Hjálmars Sigurvaldasonar (1488) þar sem sá fyrrnefndi nýtti allan sinn tíma en í jöfnu endatafli hafði hinn reynslumeiri sigur að lokum.

Önnur umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30 en öll úrslit ásamt pörun má sjá hér.