Alþjóða geðheilbrigðismótið haldið 10.októberAlþjóða geðheilbrigðismótið í skák verður haldið í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12 miðvikudagskvöldið 10.október og hefst taflið klukkan 19.30.

Tefldar verða 9 umferðir með umhugsunartímanum 4+2. Mótið verður reiknað til hraðskákstiga. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin. Þá verða einnig veitt verðlaun fyrir efstu konuna, efsta skákmanninn 60 ára og eldri, sem og efsta keppandann 16 ára eða yngri. Allir verðlaunahafar verða leystir út með verðlaunapeningi auk þess sem vegleg bókaverðlaun verða veitt. Sigurvegari mótsins fær jafnframt bikar að launum. Sigurvegari mótsins í fyrra varð Örn Leó Jóhannsson.

Mótið er haldið til að vekja athygli á Alþjóða geðheilbrigðisdeginum, sem rímar vel við kjörorð skákhreyfingarinnar: Við erum ein fjölskylda. Að mótinu standa Vinaskákfélagið, Hrókurinn og Taflfélag Reykjavíkur, en félögin hafa átt afar ánægjulegt og gott samstarf undanfarin ár.

Öllum skákáhugamönnum er velkomið að tefla með í þessu skemmtilega móti. Þátttökugjöld eru engin. Skráning fer fram í gegnum hefðbundið skráningarform.

SKRÁNINGARFORM

Skráðir keppendur