Allt á fullu hjá Taflfélagi ReykjavíkurNú þegar líður að lokum skákvertíðarinnar er lokaspretturinn í fullum gangi hjá Taflfélagi Reykjavíkur og er alls ekki úr vegi að líta á það helsta sem er að gerast hjá elsta og stærsta skákfélagi landsins.

 

Tvö lið frá TR í efstu deild Íslandsmóts skákfélaga

Eftir góðan árangur í Íslandsmóti skákfélaga er ljóst að Taflfélag Reykjavíkur mun eiga tvö lið í efstu deild þegar flautað verður til leiks næstkomandi haust enda hefur dómstóll Skáksambands Íslands staðfest úrskurð mótsstjórnar vegna kæru TR á hendur Skákdeildar Fjölnis vegna ólöglegs liðsmanns í sjöundu og síðustu umferð Íslandsmótsins í byrjun mars síðastliðnum.  Eins og vænta mátti féll úrskurður mótsstjórnar TR í hag og við staðfestingu dómstóls SÍ flyst B-lið félagsins upp í efstu deild en lið Fjölnis situr eftir í næstefstu deild.

 

Guðmundur Kjartansson sigraði í Ungverjalandi

Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson hefur verið með eindæmum virkur við skákborðið að undanförnu og bætti enn einni rós í hnappagatið þegar hann varð á dögunum einn efstur í AM flokki í First Saturday mótinu í Búdapest.  Guðmundur, sem stefnir ótrauður að stórmeistaratitlinum, er nú með 2443 stig og hefur hækkað á stigum í flestum þeirra móta sem hann hefur tekið þátt í að undanförnu en til gamans má geta þess að Guðmundur hefur teflt hátt í 200 skákir síðastliðið árið sem er með allra mesta móti.

 

Vignir Vatnar í Heimsmeistaramóti áhugamanna

Efnilegasti skákmaður landsins, Íslands- og Norðurlandameistarinn Vignir Vatnar Stefánsson, verður á meðal þátttakenda í Heimsmeistaramóti skákmanna með 2000 Elo stig og minna sem fer fram í Iasi Rúmeníu, dagana 21. apríl – 1. maí.  Vignir, sem hefur 1678 stig, er á mikilli siglingu og hefur hækkað um rúmlega 200 stig á einu ári.

 

Mótið er fjölmennt og þegar þetta er skrifað eru rúmlega 220 keppendur skráðir til leiks og er Vignir Vatnar númer 145 í stigaröðinni.  Spennandi verður að fylgjast með Vigni sem stefnir án efa að því að rjúfa 1700 stiga múrinn í mótinu en tefldar verða níu umferðir sem allar hefjast klukkan 12.30 að íslenskum tíma.

 

Veronika í Norðurlandamóti stúlkna

Hin unga og efnilega og Íslandsmeistari stúlkna í eldri flokki, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, er á meðal þátttakenda í Norðurlandamóti stúlkna sem fer fram dagana 19.-21. apríl í Svíþjóð.  Veronika teflir í B-flokki og er fimmta í stigaröðinni en alls telur flokkurinn tólf keppendur.  Tefldar eru fimm umferðir, ein á föstudag, tvær á laugardag og tvær á sunnudag.  Nú er nýlokið skák Veroniku í fyrstu umferð og varð niðurstaðan jafntefli.

 

Öðlingamótið í fullum gangi

Hið sívinsæla Öðlingamót er komið á lokasprettinn og þegar tvær umferðir lifa af móti er sigurvegari síðasta árs, Þorvarður Fannar Ólafsson, efstur með 4,5 vinning en alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason fylgir í humátt með 4 vinninga.  Alls taka 30 keppendur þátt í mótinu sem er síðasta kappskákmót félagsins á núverandi starfsári en mótinu verður fylgt eftir með Hraðskákmóti öðlinga miðvikudaginn 8. maí.

 

Laugardagsæfingarnar

Að venju blómstrar barna- og unglingastarf félagsins sem formaðurinn Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir stýrir af miklum móð.  Barna- og unglingaæfingarnar fara fram hvern laugardag yfir vetrartímann og eru geysivinsælar en nýverið var kynnt til leiks nýtt og glæsilegt námsefni sem stuðst er við í þjálfun og kennslu barnanna.  Þá voru settar á fót sérstakar stúlknaæfingar sem og afrekshópur ásamt því sem félagsmönnum TR er gert enn hærra undir höfði á æfingunum.  Aðgangur að æfingunum er ókeypis og opinn utanfélagsmönnum jafnt sem liðsmönnum Taflfélags Reykjavíkur.

 

Senn líður að aðalfundi TR og í kjölfarið hefst nýtt og spennandi starfsár í rúmlega 110 ára sögu þessa rótgróna skákfélags.