Alexander Oliver efstur á Þriðjudagsmóti!



Alexander Oliver Mai var bestur á þriðjudagsmótinu þann 25. júní. Hann vann fyrstu fjórar skákir sínar og tryggði sér sigur með jafntefli gegn skákstjóra, Gauti Pála Jónssyni, í skrautlegu hróksendatafli sem erfitt var að meta með lítinn tíma á klukkunni. En líklega var jafntefli eðilegustu úrslitin eftir allt saman!

Þrír skákmenn voru næstir í röðinni með 3.5 vinning. það voru þeir Daði Ómarsson, Gauti Páll Jónsson og Roberto Eduardo Osorio Ferrer. Tómas Sindri Leósson fékk árangursverðlaunin fyrir bestan árangur miðað við stig.

Einnig var mótið í samstarfi við Billiardbarinn, rétt eins og fimmtudagsmótið sem verður í kvöld, og á myndinni eru verðlaunahafar með gjafabréfin sín á Billiardbarinn. Sjá nánar um “Billamótin” í þessari frétt.

20 skákmenn mættu til leiks sem er alveg þokkalegt svona á þeim tíma sem sólin er hæst á lofti. Rétt er að minna á að hvorki þriðjudags- né fimmtudagsmótin taka sumarfrí og Taflfélag Reykjavíkur heldur eitt opið skákmót í sumar, nefnilega Viðeyjarmótið sem verður í júlí. Ekki á morgun heldur hinn, laugardaginn 29. júní, halda síðan vinir okkar í Miðbæjarskák Skákmót Laugardalslaugar.

Öll úrslit mótisins og stöðu má sjá á chess-results.

– Gauti Páll, skákstjóri

Alexander Oliver og Tómas Sindri verðlaunahafar.

Alexander Oliver og Tómas Sindri verðlaunahafar.