Alþjóðlegi meistarinn og TR-ingurinn Aleksandr Domalchuk-Jonasson var eini Íslendingurinn sem náði sér í Norðurlandameistaratitil helgina 14-16. febrúar á Norðurlandamóti ungmenna í Borgarnesi. Auk Aleksandr tóku fjórir TR-ingar þátt á mótinu. Benedikt Þórisson tefldi í elsta flokki (A-flokki) eins og Sasha, Josef Omarsson tefldi í U15 (C-flokki) og þeir félagar Haukur Víðis Leósson og Pétur Ernir Úlfarsson í U11 (E-flokki) og stóðu þeir sig allir með prýði!
A-flokkur U20
Aleksandr Domalchuk-Jonasson vann nokkuð góðan sigur í þessum flokki og kom í mark með fimm og hálfan vinning af sex. Sasha tefldi mjög öruggt og sýndi hvað í honum býr. Benedikt Þórisson byrjaði vel en átti slæman seinni hálfleik móts og er líklegast ekki fullkomlega sáttur þrátt fyrir fína spretti á milli.
Vinningshafar í A-flokki:
C-flokkur U15
Josef Omarsson byrjaði mótið á að falla á tíma í jafnteflisstöðu og fékk það augljóslega aðeins á hann í jafn stuttu móti. Josef náði vopnum sínum þó til baka og tefldi betur þegar leið á og endaði með 3 vinninga og tapaði 5 stigum
E-flokkur U11
Í E-flokki voru tveir bráðefnilegir TR-ingar, þeir Pétur Úlfar og Haukur Víðis og stóðu þeir sig heilt yfir vel. Pétur vantaði smá stríðsgæfu og tapar örfáum stigum en náði sér í gríðarlega mikilvæga keppnisreynslu. Haukur var í raun aflakóngur Íslendinga á mótinu og náði sér í um 65 elóstig og endaði í 4. sæti með 3,5 vinning.
TR er ánægt með sína menn á þessu móti og sýnir fjöldi TR-inga á mótinu að starfið er í miklum blóma!