Ágætur dagur hjá TR-ingum á HM í dag



Í dag fór fram önnur umferð á Heimsmeistaramóti barna og unglinga í Porto Carras í Grikklandi.  Misvel gékk hjá íslensku keppendunum eins og gengur.  Heilt yfir var þó árangurinn ágætur og krakkarnir úr TR með 50% vinninga út úr viðureignum dagsins.

Vignir2

Vignir Vatnar með reiknivélina vel varða frá sterkum sólargeislunum í dag.

Vignir Vatnar Stefánsson sigraði David Pan (1848) og er með fullt hús.  Hann teflir á fyrsta borði á morgun gegn stigahæsta keppendanum í flokknum Nodirbek Abdusattorov (2432) frá Uzbekistan.  Mjög góð byrjun hjá pilti og verðugt verkefni sem bíður hans á morgun! Skákin verður í beinni útsendingu.

Björn Hólm Birkisson sigraði í sinni skák í flokki 16 ára og yngri.  Fórnarlambið var Arshaq Saleem  (2082) frá Bandaríkjunum.  Björn hefur einn vinning eftir tvær umferðir.  Björn mætir Alex-Emanuel Geiger (2151) frá Rúmeníu á morgun og hefur hvítt.

Róbert Luu (U10) sigraði Safin Benyahia  (1260) frá Algeríu í dag og er með einn vinning.  Hann mætir næststigahæsta keppenda flokksins á morgun, rússanum Andrey Tsvetkov (2172).  Þá er bara að muna að stigin tefla ekki!

Veroníka Steinunn Magnúsdóttir (U18) gerði jafntefli við Wu Min (1945) frá Austurríki með svörtu sem er góð úrslit.  Hún mætir  Mariana Sofia T. Silva (1868) frá Portúgal á morgun sem vonandi er viðráðanlegt verkefni.  Veroníka teflir aftur með svörtu.

Bárður Örn Birkisson (U16) sem tapaði í dag gegn stigaháum Azera að nafni Ismayil Shahaliyev (2338) mætir Brassanum Davi Sulzbacher Goncalves (2170) í sambaskák á morgun.  Bárður sem hefur hálfan vinning eftir tvær umferðir mun stýra hvítu mönnunum.

Hilmir Freyr Heimisson (U14) tapaði fyrir stigaháum ítala að nafni Edoardo Di Benedetto (2238). Hilmir er með einn vinning eftir sigur í fyrstu umferð og mætir Yuto Otawa  (1756) frá Japan í þriðju umferð.

Freyja Birkisdóttir sem keppir í U10 ára flokki stúlkna laut í lægra haldi fyrir bandarísku stelpunni Skylar Hsu og á morgun er andstæðingur hennar frá Namibíu, Lure Horn.  Freyja er enn án vinnings en þá er líka farið að styttast í þann fyrsta.

Heimir Páll Ragnarsson og Stefán Orri Davíðsson sigruðu stigahærri andstæðinga í sínum viðureignum í dag.  Rauðhærða gengið Jón Trausti Harðarson, Jón Kristinn Þorgeirsson og Símon Þórhallsson gerðu jafntefli, Jón Trausti við félaga sinn úr Fjölni Oliver Aron, en aðrar skákir töpuðust.

Þriðja umferð hefst kl. 13 á morgun og við sendum öllum baráttukveðjur.

Heimasíða mótsins

Íslensku keppendurnir

Chess results

Beinar útsendingar