T.R. síðan hefur nú verið í loftinu í rúmlega 30 klukkustundir. Á þeim tíma hafa 520 gestir skoðað síðuna, flestir hér á Íslandi, en einnig aðilar frá Bandaríkjunum, Hollandi, Danmörku, Þýskalandi og víðar úti í hinum stóra heimi.
Flestir hafa annað hvort slegið inn slóð heimasíðunnar eða slegið á tengilinn á Skák-síðunni.
Vinsælasta einstaka slóðin er “Lestur á netinu”, sem vefstjóri setti inn í gær, og þá í tilraunaskyni á niðurhalssíðunni. Þar geta gestir síðunnar lesið gamlar skákbækur á netinu, án þess að niðurhala þeim. Í þessum flokki er nú aðeins ein bók, þrautabók James Pierce frá 1874. Vefstjóri býst við, úr því slíkur áhugi er fyrir hendi, að bæta þar við fleiri bókum úr safni sínu.
Það vekur athygli, að aðrar vinsælustu slóðirnar á “topp tíu” voru nær allar af þessari sömu síðu, þar sem hægt er að sækja innslegnar skákir. Skákþing Reykjavíkur 2006 var vinsælust af þeim, í öðru sæti, en Skákþing Rvk 2007 fylgdi á eftir í þriðja sæti.
Vefstjóri þakkar áhuga manna á síðunni og lofar því, að halda áfram að setja inn efni, eins og færi gefast.
Með þökk
Vefstjóri