Skákmótið ÆSKAN OG ELLIN XIV., þar sem kynslóðirnar mætast, verður haldið í 14. sinn laugardaginn 4. nóvember í Skákhöllinni í Faxafeni.
TAFLFÉLAG REYKJAVÍKUR og RIDDARINN, skákklúbbur eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu með stuðningi TOPPFISKS ehf – leiðandi fyrirtækis í ferskum og fyrstum sjávarafurðum – standa saman að mótshaldinu sem hefur eflst mjög að öllu umfangi og vinsældum með árunum.
Fyrstu 9 árin var mótið haldið í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, þar sem Riddarinn hefur aðsetur sitt og eldri skákmenn hittast til tafls vikulega allan ársins hring, en nú síðustu 4 árin í samstarfi við Taflfélag Reykjavíkur. Þessi mót – þar sem kynslóðirnar mætast – hafa jafnan verið fjölsótt jafnt af yngri sem eldri skákmönnum og afar velheppnuð. Yfir 80 ára aldursmunur hefur iðulega verið á milli yngsta og elsta keppandans.
Þátttaka í mótinu er ókeypis og miðast við börn og ungmenni á grunnskólaaldri, 15 ára og yngri og roskna skákmenn, 60 ára og eldri. Mótið hefst kl. 13 og verða tefldar 9 umferðir með 7 mínútna umhugsunartíma.
Vegleg verðlaun og viðurkenningar. Auk aðalverðlauna verða veitt aldurflokkaverðlaun í 3 flokkum ungmenna og öldunga. Annars vegar fyrir þrjú efstu sæti í barna og unglingaflokkum, 9 ára og yngri; 10-12 ára og 13-15 ára og hins vegar fyrir efstu menn í 3 öldungaflokkum, 60-69 ára; 70-79 ára og 80 ára og eldri. Auk þess fær sú telpa sem bestum árangri nær og yngsti og elsti keppandi mótsins heiðursverðlaun.
Mótsnefnd skipa þeir Kjartan Maack, formaður TR, og Einar S. Einarsson, erkiriddari/formaður Riddarans.
Skráning til þátttöku fer fram í gegnum skráningarform á www.skak.is og www.taflfelag.is vikuna fyrir mót. Hægt er að fylgjast með skráningunni hér. Hámarksfjöldi keppenda miðast við 100 og því mikilvægt að skrá sig sem fyrst og/eða mæta tímanlega á mótsstað.