Er Guðmundur ósigrandi?Svo virðist sem alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson (2356), geti ekki tapað skák þessa dagana því í dag vann hann enn einn sigurinn þegar hann lagði tékkneska alþjóðlega meistarann, Stepan Zilka (2466), í fjórðu umferð Czech Open.

Í skákinni í dag þar sem Guðmundur stýrði svörtu mönnunum kom upp drottningarindversk vörn og opnaðist staðan tiltölulega fljótt.  Guðmundur sótti stíft að Tékkanum og fórnaði peði um miðbik skákar fyrir aukin sóknarfæri.  Peðinu náði hann fljótt til baka ásamt fleirum til og í raun var sigur hans aldrei í hættu og þegar yfir lauk var staða Tékkans rjúkandi rúst.  Kröftuglega teflt hjá Guðmundi sem hefur lagt hvern alþjóðlega meistarann og stórmeistarann að undanförnu.

Guðmundur er því enn með fullt hús og deilir efsta sætinu með ítalska alþjóðlega meistaranum, Denis Rombaldoni (2465), en þeir mætast í fimmtu umferð sem fer fram á morgun kl. 13.  Guðmundur stýrir aftur svörtu mönnunum og verður skákin í beinni útsendingu á heimasíðu mótsins.

Guðmundur teflir í opnum a-flokki þar sem 295 skákmenn taka þátt en hann er númer 109 í röðinni.  Stigahæstur er Azerbaijinn, Rauf Mamedov (2645).

Heimasíða mótsins

Skákirnar í beinni

Chess-Results

Skákir til niðurhals