Æskan og Ellin 2015 Kynslóðabilið brúað!1_ÆskanogEllin_Bordi

Í dag fór fram í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur hið mikla kynslóðabrúarskákmót, Æskan og Ellin, sem fór nú fram í tólfta sinn. Mótið er samstarfsverkefni Riddarans, skákklúbbs eldri borgara, Taflfélags Reykjavíkur og OLÍS sem jafnframt er stærsti bakhjarl mótsins. Að auki veita mótahaldinu góðan stuðning POINT á Íslandi, Urður bókaútgáfa Jóns Þ. Þórs og Litla Kaffistofan í forsvari Stefáns Þormars.

meistarar_skaksogunnar

Verðlaunasjóður var glæsilegur; peningaverðlaun,  flugmiðar til Evrópu með Icelandair, eldsneytisúttektir, verðlaunabikarar- og peningar, skákbækur og veitingaúttektir.  Meðal vinninga var m.a. nýútkomin og glæsileg bók eftir Jón Þ. Þór “Meistarar skáksögunnar”.

Mótinu er ætlað að brúa kynslóðabil skákmanna en það er opið skákmönnum 15 ára og yngri sem og 60 ára og eldri en fyrirkomulagið skapar sérlega skemmtilega stemningu þar sem kátínan skín úr andlitum ungra sem roskna. Skák er svo sannarlega fyrir alla og á sér engin aldursmörk. Þannig var 75 ára aldursmunur á yngsta og elsta keppendanum!

AeskanOgEllin_2015-118

AeskanOgEllin_2015-105

Hjörvar Steinn leikur fyrsta leiknum fyrir Braga Halldórsson

Fimmtíu og fimm vaskir skákmenn voru mættir til leiks að þessu sinni sem er heldur minn en undanfarin ár og er skýringanna fyrst og fremst að leita til þess að nú er vetrarfrí í skólum en einnig eru margir öflugir skákkrakkar á leið á heimsmeistaramótið í Grikklandi sem án efa hefðu annars tekið þátt.

Hinn magnaði skákfrömuður Einar S. Einarsson bauð gesti velkomna og fór yfir sögu mótsins.  Því næst steig stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson í pontu og hélt stutta tölu.  Hjörvar tók margoft þátt í þessu móti á sínum yngri árum með glæstum árangri.  Að því loknu lék hann fyrsta leiknum í skák Braga Halldórssonar sem margsinnis hefur unnið mótið og Einars S. Einarssonar.

Spennan var mikil strax í byrjun og mörg óvænt úrslit þar sem ungir liðsmenn æskunnar létu hina eldri og reyndari finna vel fyrir kunnáttu sinni við skákborðið.  Mátti oft ráða í úrslit skáka úr fjarlægð þegar þeir stuttu tóku á sprett frá skákborðinu til skákstjóra brosandi út að eyrum til að tilkynna úrslit.

AeskanOgEllin_2015-49

Guðfinnur Kjartansson, Sævar Bjarnason og Þór Valtýsson

Það voru þó fulltrúar ellinnar sem tóku snemma forystu á mótinu.  Sævar Bjarnason og Júlíus Friðjónsson virtust í einkar góðu formi og sigruðu alla andstæðinga sína í fyrstu fjórum umferðunum.  Þeir mættust svo í mikilli rimmu í fimmtu umferð og lauk henni með þrátefli.  Reyndist það eina skákin sem Sævar vann ekki og hann kom í mark langefstur með 8 1/2 vinning af níu mögulegum.  Júlíusi fataðist hins vegar flugið í lok móts, sem gaf tveimur skákmönnum möguleika á að skjótast upp fyrir hann.  Þór Valtýsson átti góðan endasprett og kom annar í mark með 7 vinninga.  Sama má segja um Guðfinn Kjartansson sem var annar fyrir lokaumferðina en beið þá lægri hlut fyrir Sævari.  Vaskleg framganga hans dugði þó í þriðja sætið með 6 1/2 vinning líkt og Júlíus og Jóhann Örn Sigurjónsson en var ofar á stigum.

AeskanOgEllin_2015-8

Jón Víglundsson lét sig ekki vanta. Honum við hlið situr Gabríel Sær Bjarnþórsson sem stóð sig vel

Annars lagið gerðu fulltrúar æskunnar atlögu að ellinni og brutu sér leið upp á pallinn.  Var þeim þó ýtt þaðan jafnharðan.  Fengu þeir þó þar dýrmæta reynslu og nasasjón af því hve kalt getur verið á toppnum.  Halldór Atli Kristjánsson stoppaði þar tvær umferðir eftir að hafa náð fræknu jafntefli við Þór Valtýsson og Aron Þór Mai fékk gullið tækifæri í lokaumferðinni til enda í einu af toppsætunum er hann mætti Júlíusi í lokaumferðinni en tapaði í hörkuskák.

AeskanOgEllin_2015-22

Hvað ungur nemur, gamall temur. Viðar Arthúrsson og Bjarki Freyr Mariansson

Verðlaun voru veitt í fjölmörgum flokkum í lokin, auk þess sem sumir voru heppnari en aðrir í skemmtilegu vinningahappadrætti.

Í flokki elstu skákmannanna; +80 ára varð hlutskarpastur Gunnar Gunnarsson með 6 vinninga, annar varð Sigurður Kristjánsson  með 5 1/2 vinning líkt og Björn Víkingur Þórðarson sem varð þriðji á stigum.

Í flokki +70 fengu verðlaun Jóhann Örn Sigurjónsson (6 1/2),  Gísli Gunnlaugsson (6) og Eiríkur Viggósson (6)

Í flokki +60 voru það Júlíus Friðjónsson (6 1/2), Sigurjón Sigurbjörnsson (6) og Bragi Halldórsson (6) sem kræktu sér í glæsilega vinninga.

Æskan fékk einnig fjölmörg verðlaun, en þar var keppt í þremur aldursflokkum, 9 ára og yngri 10-12 ára og 13-15 ára.  Einnig voru veitt stúlknaverðlaun og sérstök verðlaun til yngsta keppandans.

AeskanOgEllin_2015-84

Benedikt Þórisson, Gabríel Sær Bjarnþórsson og Alexander Björnsson

Í flokki 9 ára og yngri var baráttan hnífjöfn og spennandi allan tímann.  Þrír strákar komu þar hnífjafnir í mark með 4 vinninga og þurfti að grípa til stigaútreiknings.  Þar var Gabríel Sær Bjarnþórsson hlutskarpastur og hlaut í verðlaun meðal annars flug með Icelandair til eins af áfangastöðum félagsins í evrópu.  Annar á stigum varð Alexander Björnsson sjónarmun á undan Benedikt Þórissyni sem varð þriðji.

AeskanOgEllin_2015-77

Sverrir Hákonarson, Halldór Atli Kristjánsson og Mikhaylo Kravchuk

Í flokki 10-12 ára var baráttan ekki síður hörð.  Þar komu jafnir í mark með fimm vinninga þeir Halldór Atli Kristjánsson, Mikhaylo Kravchuk og Sverrir Hákonarson.  Halldór tók fyrsta sætið á stigum, Misha varð annar og Sverrir þriðji.  Hlutu þeir allir vegleg verðlaun og er Halldór flugmiða með Icelandair ríkari eftir glæsta frammistöðu.

AeskanOgEllin_2015-69

Jóhann Arnar Finnsson, Aron Þór Mai og Nansý Davíðsdóttir

Í flokki 13-15 ára sigraði Aron Þór Mai með 5 1/2 vinning líkt og Nansý Davíðsdóttir og Jóhann Arnar Finnsson en hærri á stigum.  Nansý tók annað sætið og Jóhann bronsið.  Líkt og í hinum æskuflokkunum mun Aron Þór fljúga á vit ævintýranna með Icelandair.

Nansý vann stúlknaverðlaunin, og Bjartur Þórisson sem einungis er 6 ára hlaut viðurkenningu sem yngsti keppandinn.  Hann stóð sig frábærlega, hlaut 3 vinninga og lagði  að velli t.a.m. engann annan en Pétur Jóhannesson í hörkuskák.  Elsti keppandi mótsins var einnig leystur út með verðlaunum en það var að þessu sinni Björn Víkingur Þórðarson.

Pétur var þó einn af þeim fjölmörgu og heppnu keppendum sem dregnir voru út í mótslok í vinningahappdrætti mótsins. Meðal annarra sem dregnir voru út voru Friðgeir Hólm, Alexander Mai og Óskar Hákonarson.

Aðstandendur mótsins vilja koma á framfæri miklum þökkum til bakhjarla þess og ekki síst til allra þeirra frábæru keppenda sem lögðu leið sína í Faxafenið. Birna Halldórsóttir á líka heiður skilinn fyrir að standa frábæra vakt í hinu margrómaða Birnu-Kaffi. Við vonumst til að sjá ykkur öll að ári!

Heildarúrslit