Aasef Alashtar vann með fullu húsi á þriðjudagsmótinu þann 3. mars síðastliðinn. Undanfarið höfðu mótin verið einkar fámenn, teflt á nýjum dögum vegna mótahalds og jafnvel inni á skrifstofum vegna vinnu í húsnæðinu, en verið er að einangra vegginn við skákstjóraborðið. Núna var hins vegar allt orðið nokkuð normal, og 16 skákmenn mættu til leiks, vel sprittaðir, og tefldu fjórar atskákir. Næstir á eftir Aasef, sem er orðinn afar virkur í skákmótahaldi Taflfélagsins og víðar, urðu þeir Páll Snædal Andrason, Helgi Hauksson og Bárður Örn Birkisson með þrjá vinninga. Þess má geta að Helgi var með frammisöðu tæpum 250 stigum ofar sínum eigin, og hækkar um 23 atskákstig. Alexander Oliver Mai hækkar svo um 34 atskákstig og hinn stigalausi Logi Sigurðarson stóð sig vel á sínu öðru þriðjudagsmóti, en hann hlaut tvo vinninga og var með árangur upp á 1663 stig. Úrslit og stöðu mótsins má nálgast á chess-results.
Næsta mót verður þriðjudaginn 10. mars.
Mótin hefjast kl. 19:30 í Skákhöll TR í Faxafeni. Tefldar eru fjórar umferðir, tímamörk eru 15 mínútur með 5 sekúndna viðbótartíma og reiknast mótin til atskákstiga.