Aðalfundur Taflfélags Reykjavíkur fór fram í gærkvöldi, þann 26. maí, í húsakynnum félagsins að Faxafeni 12 – nánar tiltekið í Friðrikssal, heimavelli Taflfélagsins. Fundinn sátu vel á annan tug félagsmanna og fór hann fram í góðum anda, þar sem bæði venjubundin aðalfundarstörf og líflegar umræður einkenndu kvöldið.
Lítilsháttar breytingar urðu á stjórn félagsins. Guðlaugur Gauti Þorgilsson lét af störfum í aðalstjórn og fær hann einlægar þakkir fyrir sín öflugu og óeigingjörnu störf í þágu félagsins. Í hans stað flyst Arnar Ingi Njarðarson úr varastjórn upp í aðalstjórn. Þá létu einnig af störfum í varastjórn þeir Gauti Páll Jónsson og Alexander Oliver Mai. Báðir fá þeir þakkir en á engan hallar þegar Gauta er sérstaklega þakkað fyrir sitt framlag. Gauti hefur komið með ýmsar skemmtilegar mótanýjungar inn í starfið og hann er einungis að taka sér tímabundna “pásu” frá stjórnarstörfum. Í kjölfar þess komu þrír nýir fulltrúar inn í varastjórn: Kristófer Orri Guðmundsson, Benedikt Þórisson og Iðunn Helgadóttir

Ingvar Þór formaður til vinstri, fylgist með nýju varastjórnarmeðlimum, Benedikt og Iðunni. Eiríkur (hægri) hefur vafalítið kennt þeim eitthvað í taflmennskunni eins og hann kenndi formanninum í fundarsköpum!
.
Ingvar Þór Jóhannesson var endurkjörinn sem formaður félagsins og engin mótframboð bárust.
Engar lagabreytingar voru lagðar fram og fundurinn fór að öðru leyti fram samkvæmt hefðbundnum aðalfundardagskrám, þar sem málefni félagsins voru rædd af yfirvegun og áhuga.
Hápunktur fundarins var þó þegar tveir einstaklega verðugir félagsmenn fengu viðurkenningu fyrir störf sín. Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir og Torfi Leósson voru bæði útnefnd sem Heiðursfélagar Taflfélags Reykjavíkur fyrir sitt ómetanlega framlag, ekki síst í barnastarfi félagsins og uppbyggingu grasrótarinnar. Bæði hafa sinnt ýmsum störfum fyrir félagið í gegnum árin og ásamt grasrótarstarfi hafa þau bæði setið í formannsstól. Fráfarandi stjórn þótti við hæfi á 125 ára afmælisári að þakka fyrir grasrótarstarfið!
Við óskum nýrri stjórn velfarnaðar og þökkum fráfarandi stjórnarfólki kærlega fyrir framlag þeirra til félagsins.