Þriðjudags- og fimmtudagsmót TR í samstarfi við Billiardbarinn!



Hefðbundin þriðjudags- og fimmtudagsmót munu fara fram í vikunni hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Þó verður það snið aukalega á að mótin verða með verðlaunum og í samstarfi við Billiardbarinn sem er einmitt í sama húsnæði í Faxafeni 12!

billiardbarinn

Billiardbarinn mun veita aukaverðlaun en auk þess verða í gangi tilboð á mótsdögunum. Ef menn vilja gæða sér á hamborgurum þá eru þeir á góðu verði og minnist menn á Taflfélagið fylgir hálfs lítra gos frítt í kjölfarið! Eftir mótin er svo 50% afsláttur af tímagjaldi í pool/pílu eða snóker ef menn segjast koma af Taflfélagsmóti!

Um að gera að gera sér góðan dag, fá sér gott í gogginn, þjálfa hugann og taka svo smá útrás í pool eða pílu svo dæmi sé tekið!

Atskákmót hjá TR á þriðjudagskvöldið. Tefldar eru fimm skákir og tímamörkin eru 10 mínútur á skákina að viðbættum 5 sekúndum á hvern leik. Teflt er í einum flokki. Mótið er opið öllum og reiknað til alþjóðlegra atskákstiga. Teflt er í félagsheimili TR, Faxafeni 12 og taflmennskan hefst stundvíslega klukkan 19:30. Það þarf ekki að skrá sig fyrirfram, nóg að mæta á staðinn. Umsjón með mótunum hafa þeir Eiríkur K. Björnsson og Gauti Páll Jónsson.

Þátttökugjald eru eftirfarandi:

Félagsmenn TR 18 ára og eldri: 500kr.

Félagsmenn TR 17 ára og yngri: Ókeypis

Utanfélagsmenn 18 ára og eldri: 1000kr.

Utanfélagsmenn 17 ára og yngri: 500kr.

Utanfélagsmenn: 10 skipta klippikort: 7500kr.

Veitt eru hefðbundin verðlaun, 3000 króna inneign í Skákbúðina, fyrir sigurvegara mótsins, og fyrir bestan árangur miðað við eigin stig (rating performance).

Auk þess mun sigurvegari hljóta máltíð á Billiardbarnum auk klukkutíma af fríu spili í pool/pílu. Besti árangur miðað við eigin stig fær aukalega 2 klukkutíma af fríu spili í pool/pílu.

Sömu aukaverðlaun verða í boði á fimmtudaginn en þá er tefld hraðskák, tímamörk 3+2!

Besti árangur á mótunum samanlagt fær svo verðlaun aukalega og auk þess verða dregin aukaverðlaun en til þess að fá þau verður að mæta BÆÐI á þriðjudags- og fimmtudagsmót!

Taflfélag Reykjavíkur.