Enn mæta fjölmargir á Þriðjudagsmót um mitt sumar, en þann 25. júlí mættu 32 skákmenn til leiks. Það vildi svo skemmtilega til að alþjóðlega yfirbragðið var jafnvel enn meira en vanalega að þessu sinni – efstu þrír útlendir! Íraninn Hadi Rezaei Heris sem er fullorðinn skákmaður í framför og liðsmaður TR, vann að þessu sinni en eftir oddastigaútreikning, en hann var fyrir ofan hinn úkraínska Andrey Prudnikov sem hefur verið afar sigursæll undanfarið. Þriðji varð Jurgen Snaider Molina Cruz frá Venesúela með fjóra vinninga en einnig fengu Harlad Björnsson, sem náði hefndum gegn Gauta Páli skákstjóra frá því sá síðarnefndi grísaði á hann fyr á árinu, og Kristján Örn Elíasson útvarpsstjarna fjóra vinninga. Juregn fékk að auki árangursverðlaunin.
Skákstjóri var furðu fljótur með sínar skákir. Vinningsskákir unnust nokkuð fljótt, tapskákin var stutt kvöl, en aðeins ein skák dróst á langin og endaði jafntefli. Því gafst honum góður tími til að reita hár sitt yfir glötuðum tækifærum í endatöflum sem sáust þetta kvöld!
Þeir sem byrja fullorðnir í skák virðist stundum vanta smá “skólun” upp á í endatöflum og leggja kannski eðlilega áherslu á taktík og að hafa byrjanir sínar á hreinu. Sem á líka rétt á sér, það er til dæmis frekar tilgangslaust að vera góður í endatöflum ef maður lætur máta sig í byrjuninni. En hvort sem það er Skákskóli Íslands, TR, Breiðablik, eða hvaða félag sem er, þá læra krakkarnir alltaf helstu endatöflin þar og mörg þeirra festast einfaldlega í minni og verða hluti af vöðvaminninu svo vitnað sé í talsmáta úr lyftingum.
Sjálfur las ég á sínum tíma Hagnýt endatöfl eftir Paul Keres og síðar 100 endgames you must know eftir Jesus de la Villa. Þessar bækur eru meira en nægur grunnur fyrir venjulegan skákmann. Ég hef nokkrum sinnum reynt mér fyrir Dvoretskys endgame manual en lét að endingu myndböndin á chessable duga, sem rifjuðu upp það sem ég áður þekkti en dýpkuðu líka kunnáttuna.
Afar hagnýtt endatafl kom upp í lokaskákinni, jafntefli þeirra Hadi með hvítt og Andrey með svart. Eftir drottningarkaup kom upp þessi staða og hvítur lék …g4?? og upp vakna tvær drottningar og staðan er jafntefli eftir að Andrey finnur frekar auðveldan þráleik. Hins vegar gat hvítur leikið Kf3 og kóngurinn er inn í kassanum sem hægt er að teikna upp með peðinu – og stoppar því svarta frípeðið. Hér þarf í raun ekki að reikna neinar leikjaraðir. Það endatafl vinnst á hvítan ef hann byrjar á að elta og stoppa peðið og vekur síðan sjálfur upp drottningu þar sem peðin valda hvort annað.
Öll úrslit mótsins má nálgast á chess results.
Næsta þriðjudagsmót verður þriðjudaginn 1. ágúst næstkomandi og hefst stundvíslega klukkan 19:30. Teflt er í félagsheimili TR Faxafeni 12 og mótið er öllum opið.