Íslandsmót unglingasveita 2019 fór fram í Garðaskóla í Garðabæ í dag, 7. desember. Alls tóku 18 lið þátt frá fimm skákfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Taflfélag Reykjavíkur tefldi fram 5 liðum (A-E), sem náðu stórgóðum árangri.
A-lið TR sigraði með glæsibrag með 24 vinningum. Í öðru sæti varð Skákdeild Breiðabliks A-lið og B-lið Breiðabliks varð í 3. sæti.
Í 4. – 6. sæti urðu svo B, C og D lið Taflfélags Reykjavíkur og TR varð þannig einnig Íslandsmeistari í flokki C og D liða.
Krakkarnir úr TR stóðu sig frábærlega vel, sýndu mikla einbeitingu og seiglu ásamt góðri skákhegðun við skákborðið og utan þess.
Fjöldi skákkrakka frá Taflfélagi Reykjavíkur á þessu móti taldi 22. Strákarnir voru 13 og stelpurnar 9 og það æxlaðist þannig að öll fimm liðin frá TR, sem voru styrkleikaröðuð, voru blönduð með stelpum og strákum.
A-liðið. Það var Stúlknameistari TR, Batel Goitom Haile, sem fékk það verkefni að leiða A-liðið á 1. borði. Gerði hún það mjög vel og sýndi mikla baráttu við sterkustu andstæðingana. Á 2. borði tefldi Benedikt Þórisson, sem er ríkjandi Unglingameistari TR. Á 3. borði tefldi Kristján Dagur Jónsson og á 4. borði tefldi Ingvar Wu Skarphéðinsson. Benedikt og Ingvar tefldu nú í 1. sinn í A-liði TR og fóru mikinn. Liðið vann allar sínar viðureignir og Benedikt, Kristján Dagur og Ingvar fengu allir borðaverðlaun, fyrir bestan árangur á 2., 3., og 4. borði!
B-liðið varð í 4. sæti í mótinu með 17 vinninga (hálfum vinning fyrir neðan bronssætið). Hér tefldu þau Árni Ólafsson, Adam Omarsson, Iðunn Helgadóttir og Arnar Valsson. Adam og Iðunn tefldu með B-liðinu í fyrsta sinn. Öll eru þau mjög virk í skákinni, bæði á skákæfingum og í skákmótum.
C-liðið varð í 5. sæti með 15 vinninga. Hérna tefldu sömuleiðis gífurlega iðnir krakkar, sem eins og flest öll sem tefldu fyrir TR í dag, sækja grimmt skákæfingar félagsins og taka þátt í öllum þeim skákmótum sem þau geta! Þetta voru þau Bjartur Þórisson, Markús Orri Jóhannsson, Jósef Omarsson, Einar Tryggvi Petersen og Anna Katarina Thoroddsen. Þau fengu verðlaun fyrir að vera besta C-liðið!
D-liðið varð í 6. sæti einnig með 15 vinninga. Þau skutust upp í 6. sæti eftir 4-0 sigur í síðustu umferð og fengu þar með verðlaun fyrir að vera besta D-liðið! Þau sem tefldu hér voru þau Soffía Arndís Berndsen, Katrín María Jónsdóttir, Jón Björn Margrétarson, Lemuel Goitom Haile og Bergþóra Helga Gunnarsdóttir.
E-liðið varð í 14. sæti með 12,5 vinning. Þau sem tefldu hér voru þau Elín Lára Jónsdóttir, Jón Louie Thoroddsen, Wihbet Goitom Haile og Gerður Helgadóttir, sem tefldi hér í fyrsta sinn á Íslandsmóti unglingasveita. Jón Louie var í miklu skákstuði og eftir jafntefli í 1. umferð setti hann í 4. gír og vann rest! Hann fékk því borðaverðlaun fyrir bestan árangur á 2. borði!
Frábær árangur hjá skákkrökkunum í TR á þessu móti og allt fer þetta í reynslubankann!
Eins og við höfum gert að hefð, þá tókum við hópmynd af TR-hópnum eftir verðlaunaafhendinguna. Ekki var verra að geta einnig hampað Íslandsmeistarabikarnum!
Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum skákkrökkunum, sem tefldu fyrir hönd félagsins á Íslandsmóti unglingasveita í dag. Einnig þökkum við foreldrum fyrir öll samskiptin í undirbúningi að þátttöku að mótinu, auk þeirra sem sáu sér fært að vera á mótsstað til halds og trausts.
Liðsstjórar fá einnig bestu þakkir, en það voru þau Daði Ómarsson, Una Strand Viðarsdóttir, Torfi Leósson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.
Loks viljum við koma þökkum á framfæri til Páls Sigurðssonar og Sindra Guðjónssonar, mótshaldara og skákstjóra hjá TG.
Allir krakkar frá félögunum sem tóku þátt í dag, Skákdeild Breiðabliks, Fjölni, Víkingaklúbbnum og TG fá þakkir fyrir skemmtilega keppni.
Myndir tóku Una Strand Viðarsdóttir og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.
Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.