Það var sjálfur Íslandsmeistarinn, Guðmundur Kjartansson, sem sigraði á Meistaramóti Truxva 2018 sem fram fór á annan í hvítasunnu. Guðmundur tefldi örugglega og landaði 10 vinningum af 11 mögulegum. Alls tóku 20 keppendur þátt, þar af 4 titilhafar.
Eitthvað vantaði af „stigamönnum” til að stríða Íslandsmeistaranum en gestirnir að þessu sinni voru þrír efnilegir Blikar, þrír grjótharðir Skákgengismenn og Fjölnismaðurinn geðþekki Dagur Ragnarsson. Óvæntustu úrslit mótsins voru án efa þau að Halldór Ingi Kárason (1809) gerði sé lítið fyrir og vann Guðmund (2443) með svörtu í fjórðu umferð, en að eigin sögn á hann það til að vinna sigurvegara hraðskákmóta! Í öðru sæti með 7,5 vinning var einn af tveimur kandídatameisturum félagsins, Hilmir Freyr Heimisson, en hann vann fyrstu fimm skákirnar. Í þriðja sæti var Björn Hólm Birkisson með 7 vinninga en hann skaust upp listann með sigrum í síðustu tveimur umferðunum eftir brösótta byrjun. Loftur Baldvinsson var einnig með 7 vinninga en var lægri en Björn á stigaútreikningi. Í halarófu komu svo sex skákmenn með 6,5 vinning.
Stigakóngar mótsins voru þeir félagar úr Skákgenginu, Loftur og áðurnefndur Halldór Ingi, en þeir hækkuðu um 56 og 50 stig. Næstur var Arnar Ingi Njarðarson með 44 stiga hækkun en hann hefur nú hafið taflmennsku á ný eftir nokkurra ára hlé. Veitt voru bókaverðlaun frá Bóksölu Stefáns Bergssonar og notuð forláta viðurkenningarskjöl sem fundust eftir nokkurt grams á skrifstofu félagsins. Þessi viðurkenningarskjöl eru eflaust komin til ára sinna en komu að góðum notum nú á öðru Meistaramóti Truxva.
Öll úrslit mótsins sem og lokastöðu má finna á Chess-Results.
Nú er vorönn Taflfélagsins formlega lokið og undirbúningur hafinn fyrir mót haustsins, sem verða mörg, að vanda. Meistaramót Truxva hefur fest sig rækilega í sessi og ef ekkert breytist má búast við að mótið verði haldið aftur annan í hvítasunnu að ári, þann 10. júní 2019.