7.umferð Haustmótsins fer fram í dagÍ dag hefst 7.umferð Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur. Spennan á toppi A-flokks er óbærileg nú þegar lokasprettur mótsins er að hefjast. Davíð Kjartansson leiðir flokkinn með 4,5 vinning í 6 skákum. Í humátt á eftir honum kemur ungstirnið úr Grafarvoginum, Oliver Aron Jóhannesson, sem og gamla brýnið Þorsteinn Þorsteinsson, báðir með 4 vinninga. Svo skemmtilega vill til að þeir Oliver og Þorsteinn mætast í dag í vafalítið hörku skák. Keppni um titilinn Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur er ekki síður spennandi en þar heyja harða baráttu þeir Sævar Bjarnason og Þorvarður Fannar Ólafsson, báðir með 3,5 vinning.

Í B-flokki leiðir sem fyrr Björn Hólm Birkisson með 4,5 vinning. Björn Hólm hefur setið í toppsætinu frá 1.umferð þrátt fyrir að vera stigalægstur í flokknum. Í humátt á eftir Birni Hólm koma svo tveir erlendir gestir sem sett hafa skemmtilegan svip á mótið í ár, þeir Damia Benet Morant frá Spáni og Christopher Vogel frá Þýskalandi. Báðir hafa þeir 4 vinninga.

Bárður Örn Birkisson er efstur í C-flokki en hann hefur unnið allar 6 skákir sínar. Hann hefur teflt vasklega og af nokkru öryggi til þessa en á þó eftir að mæta þeim tveimur sem í næstu sætum koma; Felix Steinþórsson er í 2.sæti með 4,5 vinning og Kristófer Jóel Jóhannesson er þriðji með 4 vinninga. Í dag mætir Bárður Örn hinum geðþekka fulltrúa Vinaskákfélagsins, Hjálmari H. Sigurvaldasyni.

Í D-flokki hefur Ólafur Evert Úlfsson enn fullt hús og hefur hann nú vinningsforskot á þá Aron Þór Mai og Arnþór Hreinsson. Í dag teflir Ólafur Evert við Kristófer Halldór Kjartansson, en sá síðarnefndi hefur teflt vel í mótinu og er líklegur til að komast inn á stigalista FIDE áður en langt um líður.

Umferðin í dag hefst klukkan 14 og má búast við hörku skákum á mörgum borðum nú þegar lokasprettur mótsins er hafinn. Sem fyrr er heitt á könnunni og ilmandi bakkelsi á borðum hjá Birnu í kaffistofunni. Allir velkomnir!