4. umferð í Varna – frá liðsstjóra



Sigur vannst í dag á Hvít-Rússum með minnsta mun, 2,5-1,5.  Daði fékk að hvíla, enda hefur hann verið að tefla veikur.  Á sama tíma unnu Litháar Búlgarina með sama mun og eru nú komnir með 2 vinninga forskot í efsta sætinu.  Lengi vel leit nú út fyrir 3,5-0,5 sigur og hefðu mótið þá nánast verið búið.

 

4. umferð u-16 ára flokki:

 

Litháen – Búlgaría 2,5-1,5

 

Ísland – Hvíta-Rússland 2,5-1,5

 

1. Vilhjálmur Pálmason – Alisa Scherbakova 0-1

2. Matthías Pétursson – Aleksander Davidchik 1-0

3. Einar Sigurðsson – Maxim Lyovin 1-0

4. Aron Ellert Þorsteinsson – Nikita Kiselj 0,5-0,5

 

Vilhjálmur fékk það erfiða hlutverk að tefla á efsta borði.  Hann fékk ágæta stöðu út úr byrjuninni, en reynsluleysi varð honum að falli.  Hann hefur aldrei teflt þetta afbrigði áður og var ekki alveg með á hreinu hvað væri mikilvægast í stöðunni.

 

Ég hef tekið eftir því að Davidchik, andstæðingur Matta í þessari skák, teflir alltaf upp á sókn.  Keppendur hrókuðu á sitt hvorum vængnum, en það voru drottningarvængspeð Matta sem voru fljótari í förum en kóngsvængspeð Hvít-Rússans.  Úrslitin: Fjórði sigur Matta í röð.

 

Skákir Einars og Arons voru báðar afar skrýtnar.  Einar fékk þrönga stöðu úr byrjuninni og andstæðingur hans þrengdi meira og meira að og vann að lokum peð.  En þá lék hann af sér hróknum nánast samstundis.  Einar fór löngu leiðina, en hafði samt sigur að lokum.

 

Þessu var þveröfugt farið í skák Arons.  Aron virtist vera að þrengja að andstæðingnum og vann meira að segja mann.  Þegar hann virtist vera að innbyrða vinninginn lenti hann undurfurðulegri mátgildru og varð að gefa mann til að forðast tap.  Hann reyndi áfram að vinna, en jafntefli varð niðurstaðan að lokum.

 

En, sem sagt.  Þetta var fyrsta viðureignin sem við vinnum.  Á morgun fáum við Búlgarina og það verður eflaust hörkukeppni.  Við ætlum að reyna að rétta okkar hlut frá því í fyrri umferðinni.

 

Staðan:

 

1. Litháen 10

2. Búlgaría 8

3. Ísland 7 (3 MP)

4. Hvíta-Rússland 7 (2 MP)

 

Torfi Leósson