Halldór Pálsson Vetrarmeistari öðlinga



Gríðarlega spennandi Vetrarmóti öðlinga lauk síðastliðið miðvikudagskvöld þegar sjöunda og lokaumferðin fór fram í húsnæði Taflfélags Reykajvíkur að Faxafeni 12.  Áður en úrslita er getið er rétt að minnast á þær glæsilegu veigar sem Birna Halldórsdóttir bauð upp á og það endurgjaldslaust.  Birna er fyrir löngu orðin rómuð fyrir velgjörðir sínar í þágu Taflfélagsins og verður henni seint fullþakkað fyrir framgöngu sína.

Veitingar Birnu runnu ljúflega niður og gáfu keppendum næga orku fyrir baráttuna á reitunum 64.  Toppbaráttan hafði verið jöfn og spennandi allt mótið og svo fór að Halldór Pálsson og Gylfi Þór Þórhallsson voru efstir og jafnir með 5 vinninga þegar lokaumferðin hófst.  Svo skemmtilega vildi til að þeir mættust í lokaumferðinni þar sem Gylfi stýrði hvítu mönnunum en þeir voru báðir á meðal þriggja sigurvegara mótsins í fyrra og þá var Halldór í 4.-6. sæti þegar mótið var fyrst haldið fyrir tveimur árum.

Úrslitaviðureign Gylfa og Halldórs reyndist bera nafn með rentu því úr varð hundrað leikja maraþonskák þar sem þeir félagar sættust að lokum á skiptan hlut og luku því keppni með 5,5 vinning hvor.  Á sama tíma áttust við Haraldur Baldursson og Magnús Pálmi Örnólfsson sem báðir höfðu 4,5 vinning en þar hafði Magnús öruggan sigur og náði þar með Gylfa og Halldóri að vinningum.

Að loknum stigaútreikningi stóð Halldór uppi sem sigurvegari mótsins og er þar með Vetrarmeistari öðlinga 2013 en Gylfi kom næstur og þá Magnús.  Halldór er annar TR-ingurinn sem vinnur titilinn en Benedikt Jónasson sigraði árið 2011 áður en Sverrir Örn Björnsson tók við keflinu í fyrra.

Ríkharður Sveinsson, Hrafn Loftsson og Páll Sigurðsson komu næstir í mark með 5 vinninga og er það til marks um það hversu jafnt og spennandi mótið var að engum keppendanna tókst að fara taplaus í gegnum það.

Friðgeir Hólm, sem hlaut 4,5 vinning, hækkaði mest allra að þessu sinni eða um 30 stig.  Aðrir sem nældu sér í góðan stigagróða voru Haraldur Baldursson (21 stig), Jon Olav Fivelstad (19 stig, 4,5 vinningur) og Gylfi Þór (16 stig).

Þátttakendur voru 36 og skákstjórn var í öruggum höndum Ólafs S. Ásgrímssonar sem á, að öllum öðrum ólöstuðum, veg og vanda að öðlingamótunum í gegnum árin.

Við verðlaunaafhendingu mótsins tók Björgvin Kristbergsson við viðurkenningu frá formanni T.R. Birni Jónssyni fyrir ötula þátttöku í mótum félagsins síðastliðna tvo áratugi.

  • Chess-Results
  • Myndir