3. umferð hafin í Póllandi



Nú er 3. umferð rétt nýhafin í Mysliborz.  Enginn okkar manna er í beinni að þessu sinni, en þeir fá allir Pólverja.  Dómarinn var rétt í þessu að árétta að gsm-hringing þýddi tap, en eitthvað hefur verið um hringingar fyrr í mótinu.

 

Mér tókst ekki að klára umfjöllun um 2. umferð í gærkvöldi.  Um leið og Vilhjálmur kláraði sína skák, sem lauk með tapi eftir að hann hafði misreiknað sig, þurftum við að fara í heilsugæsluna og láta skoða fótinn á honum betur.  Strákurinn var búinn að vera með vægan hita og höfuðverk yfir daginn og því kom ekki annað til greina en að láta kíkja á þetta.

 

Á meðan sátu Daði og Matti að tafli.  Ég er ekki búinn að fara yfir skák Matta ennþá og veit ekki hvort hann missti af jafntefli í drottningarendataflinu einhvers staðar.  En hann hefði getað þráleikið við 20. leik.  Hann hélt hinsvegar áfram og reyndi að búa eitthvað til, en fyrir mót var ég einmitt búinn að tala við strákana um það að tefla allar skákir í botn:  Þetta mót væri bara til að öðlast reynslu og ekki skiptir máli hversu margir vinningarnir verða.  Öðru máli gildir þegar komið verður út í Evrópumót skólasveita í Búlgaríu síðar í mánuðinum.

Ég held að hann muni læra meira af þessari skák þó hann hafi tapað, heldur en ef hann hefði gert jafntefli í 20. leik.  En það má í öllu falli kenna mér um þessi úrslit!

 

Daði, held ég, átti hinsvegar jafntefli gegn stórmeistaranum.  Við höldum að sama staðan hafi verið búin að koma upp þrisvar sinnum.  Daði ætlaði þá að krefjast og leit á dómarann sem leit frá einmitt á þeirri stundu.  Undir þeirri pressu sem hann var ákvað Daði að tefla áfram, en rétt hefði verið að miskunnarlaust stöðva klukkuna og krefjast jafnteflis.  Svona reynsla er líka dýrmæt, menn læra að maður á ekki að vera kurteis eða feiminn á skákborðinu sjálfu (enda um herstjórnarleika að ræða), þó ég mæli nú með því að menn séu kurteisir og skemmtilegir utan borðs.  En við getum sagt að þetta hafi verið tæknileg mistök sem kostuðu hálfan vinning í þessari skák.

 

Af Vilhjálmi er það annars að frétta að við náðum ekki til læknis í heilsugæslunni í gærkvöldi og snerum við á hótelið, en þá voru stelpurnar á hótelinu orðnar hræddar um heilsu hans og úr varð að ein þeirra kom í frítíma sínum og leysti aðra af sem keyrði okkur á bráðavaktina.  Ekki verður annað sagt en að umhyggja þeirra sé til fyrirmyndar.  Bráðavaktin leit á sárið og skipti um umbúðir, en taldi ekki nauðsynlegt að gera meira að sinni.

Í morgun fórum við svo á heilsugæsluna og hittum lækninn aftur og var Vilhjálmur settur á sýklalyf.  Vonandi verða ekki fleiri vandamál út af þessu, en á meðan er vel fylgst með drengnum, sem teflir með fótinn upp á stól það sem eftir er móts.

 

Veikindi Vilhjálms hafa e.t.v. minnkað eilítið þann tíma sem ég hefði haft til að stúdera með strákunum.  Það er nú ekki stórmál.  Í dag eru tefldar 2 umferðir og því mikilvægast að menn séu vel úthvíldir, auk þess sem ekki er til mikið um andstæðinga dagsins.  Eftir miskunnarlausa sól undanfarna daga, er skýjað í dag, en það hentar okkur ágætlega, þar sem við munum hvort eð er verja mestum deginum innandyra.

 

Torfi Leósson