3 sigrar og tvö töp í Mysliborz



Þá er mótið í Mysliborz hafið og skáksveit Laugalækjarskóla er meðal þátttakenda, reyndar sem einstaklingar, en ekki sem sveit.  Skrifari (Torfi Leósson) er með í för sem liðsstjóri.

Mysliborz er 15.000 manna vinalegur pólskur bær, rétt við þýsku landamærin.

Raunar var hentugast fyrir okkur að fljúga til Berlínar í fyrradag og dvelja þar í einn og hálfan dag og taka svo lestina yfir til Póllands.

Ekki verður sagt að það hafi verið slæmt fyrirkomulag, við vöndumst Evrópska sumarhitanum í Berlín og náðum að hrista úr okkur ferðaþreytuna, áður en haldið var í alvöruna, mótið í Póllandi.

Þess má geta að við vorum ekki einu skákmennirnir sem héldum til Berlínar, aðrir sem nefna má eru Jón Þ. Þór og sjálfur forseti Skáksambandsins, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, og var það okkur öllum mikil uppörvun að hitta þau og taka á móti baráttukveðjum frá þeim.

Pólverjarnir tóku vel á móti okkur við landamærin, afar hjálplegir þrátt fyrir þann tungumálamisskilning sem óhjákvæmilega kemur upp þegar reynt er að talast saman á bjagaðri þýsku (þ.e.a.s. hjá okkur Íslendingunum), ensku og fingramáli. 
 

Annar bílstjórinn sem keyrði okkur til Mysliborz reyndist vera skákmaður, en höfum við gleymt nafni hans.  Hann sagðist hafa teflt bréfskák við Samúelson úr Kópavogi fyrir 10 árum, en kem ég því með engu móti fyrir mig hver það gæti verið og lýsi eftir honum hér með. (Innskot: Vefstjóri telur, að þar fari Helgi Samúelsson!)

Síðan þegar komið var á hótelið var okkur tjáð að við værum fyrstu Íslendingarnir til að heimsækja Mysliborz – og 10 eintök af Íslendingum, þar eð utan mín og drengjanna eru þrír foreldrar og einn bróðir með í för.

Hjálpsemi Pólverjanna kom einkar vel fram í dag, en Vilhjálmur varð fyrir því óhappi að reka sig í bryggjuna eftir að hafa synt í vatninu hérna.  Sárið var skolað og plástrað, en við tókum svo eftir því í hádegismatnum að það var byrjað að bólgna upp.  Þá skipti engum togum að allir voru af vilja gerðir að hjálpa okkur: frá stelpunum á veitingastaðnum sem hjálpuðu okkur að finna sjúkrahúsið, til gamla gráhærða læknisins sem talaði ensku og framkvæmdi fyrstu skoðun, læknisins sem gerði að sárinu og loks hótelstarfsfólkinu sem bjó til íspoka til að hjálpa til við bólguna.

Þetta var töluvert sjokk fyrst – ef til vill mest fyrir mig! – en nú vonum við að þetta verði í lagi.  Við förum aftur til læknis eftir 1-2 daga, en á meðan þarf Vilhjálmur að vera með búið um fótinn og með íspoka og með fótinn uppi á stól – öllum stundum!

Með þessum hætti tókst honum þó að vinna með afbrigði af Légals máti í dag.  Daði og Matthías unnu einnig frekar örugglega, en allir fengu þeir frekar auðvelda andstæðinga, Daði þó þann síst auðvelda.

Einar og Aron máttu svo bíta í það súra að tapa, en þeir voru að tefla við tvo stigahæstu menn mótsins.  Einar virtist reyndar hafa góða stöðu þegar hann lék af sér, en ég lét mér fróðari menn um að dæma um það – skákina má eflaust nálgast á netinu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það að sinni, ég er hér að nota nettengingu skipuleggjendanna – enn eitt dæmið um hvað þeir eru almennilegir – og vona að ég geti sent fleiri svona fréttir frá mótinu.

 

Torfi Leósson
torfi@taflfelag.is