Skákæfingar T.R. á fullri ferð!



Þrátt fyrir vonskuveður á laugardaginn var, 3. nóvember, mætti hátt á fjórða tug barna og unglinga á skákæfingu í félagsheimili T.R. Að þessu sinni var sameiginleg æfing hjá afrekshóp T.R. og yngri hópnum. Það var skemmtilegt tækifæri fyrir þau yngri að reyna sig á móti eldri og reyndari skákkrökkunum. Salurinn er um þessar mundir uppraðaður fyrir Vetrarmót öðlinga, þannig að krakkarnir tefldu við kjöraðstæður.

 

 

Skákæfingar fyrir stelpur og konur á öllum aldri eru kl. 12.30 til 13.45 og er þátttakan þar að glæðast eftir rólega byrjun í haust. Umsjón með þeim æfingum hefur Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Skákæfingarnar fyrir börn og unglinga fædd 1997 og síðar eru svo kl. 14-16. Það eru tveir hópar sem æfa samhliða, annars vegar afrekshópur T.R. sem Daði Ómarsson þjálfar, en hann er bæði Skákmeistari T.R. 2012 og Hraðskákmeistari T.R. 2012. Umsjón með yngri flokknum hefur svo Torfi Leósson, margreyndur skákþjálfari T.R.-inga.

 

 

Á skákæfingunum er skákþjálfun og taflmennsku blandað saman. Á hverri æfingu er boðið upp á hressingu, sem krökkunum finnst vera ómissandi! Þátttakendur á skákæfingum Taflfélags Reykjavíkur koma úr öllum hverfum Reykjavíkurborgar svo og úr Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Sjá nánar um skákæfingar T.R. og mót á vegum félagsins á heimasíðu T.R. www.taflfelag.is

Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.

Myndir frá Laugardagsæfingu T.R. 3. nóv. Björn Jónsson