3 í beinni í MysliborzÖnnur umferð er nú nýhafin í Mysliborz og eru þrír af okkar drengjum í beinni útsendingu:

Daði Ómarsson fær erfiðasta verkefnið, en hann hefur hvítt á móti sjálfum skipuleggjanda mótsins, stórmeistaranum Juri Zezulkin.

Matthías Pétursson er með hvítt á móti skákkonunni Svetlönu Cherednichenko og loks er Vilhjálmur Pálmason með svart á móti Aleksander Smirnov.

Einar Sigurðsson og Aron Ellert Þorsteinsson fá hinsvegar heimamenn: Einar hefur svart á móti Michal Ostrowski og Aron er með hvítt á Andrzej Olszowka.

 

Búnir eru nokkrir leikir af skákunum og er skemmtilegt að segja frá því að undirbúningur hefur gengið að mestu upp.  Vilhjálmur er að fá á sig sama hliðarafbrigði á móti Sikileyjarvörn og við höfðum búist við.  Vilhjálmur er reyndar búinn að vera hálf slappur í dag og við fórum ekki of djúpt í þetta afbrigði.

Daði er að tefla á móti sérfræðingi í Sveshnikov afbrigðinu, en gaman er að segja frá því að Snorri G. Bergsson var búinn að taka hann í nokkra tíma í því fyrir mót.  Við náðum reyndar ekki að rifja upp nema bút af því í morgun, en það er að sjálfsögðu fyrst og fremst góð reynsla fyrir Daða að fá að tefla á móti expert í afbrigðinu.

Andstæðingur Matthíasar gat hinsvegar valið mörg afbrigði, miðað við fyrri reynslu, og valdi hún það sem við eyddum minnstu púðri í.

Ég sit bara hérna fyrir utan og nota netaðganginn sem Pólverjarnir voru svo góðir að láta mig hafa.