Vel sótt U-2000 mót hófst á miðvikudagIMG_8761

U-2000 mótið er fjölmennt og vel skipað.

Hún var skemmtileg stemningin í salarkynnum TR á miðvikudagskvöld þegar U-2000 mótið var keyrt í gang annað árið í röð eftir vel heppnaða endurvakningu en tvöfalt fleri sækja mótið í ár en í fyrra, eða ríflega 40 keppendur. Margar af viðureignum fyrstu umferðar urðu jafnar og spennandi en keppendahópurinn samanstendur af ungum og upprennandi skákmönnum sem og þeim reynslumeiri og lengra komnu. Þó að flest úrslit hafi verið eftir bókinni er alveg á hreinu að það er ekkert gefið fyrir þá stigahærri og ljóst að afar skemmtilegt mót er framundan.

IMG_8763

Sigurvegari síðasta árs Haraldur Baldursson lætur sig ekki vanta.

Stigahæstur keppenda er sigurvegari mótsins í fyrra, Haraldur Baldursson (1957), og verður að teljast líklegt að hann verði í harðri baráttu um að endurtaka leikinn. Hóf hann einmitt mótið með sigri á liðsmanni Vinjar, Hjálmari Sigurvaldasyni (1495), sem lætur sig sjaldnast vanta á mót félagsins. Næstur í stigaröðinni er hinn norskættaði Jon Olav Fivelstad (1918) sem stöðvaði loks taplausa hrinu Ólafs Everts Úlfssonar (1464). Þriðji í röðinni er síðan hinn ungi og efnilegi Dawid Kolka (1907) sem lagði Davíð Arnarson (1424).

IMG_8762

Jon Olav sést hér stýra svörtu mönnunum til sigurs gegn Ólafi Evert.

Ríflega 300 Elo-stigum munaði á Guðmundi Aronssyni (1767) og Jóhanni Bernhard Jóhannssyni (1426) þar sem sá síðarnefndi hafði sigur. Þá gerðu jafntefli Helgi Pétur Gunnarsson (1801) og Þorsteinn Magnússon (1379), sem og Örn Alexandersson (1217) og Agnar Darri Lárusson (1755).

IMG_8765

Tvær góðar. Veronika Steinunn Magnúsdóttir hefur hér hvítt gegn hinni ungu og efnilegu Batel Goitom. Á pallinum eigast við Dawid og Davíð.

Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst á slaginu 19.30. Áhorfendur eru velkomnir og er vert að nefna að Birnu-kaffi verður opið þar sem gæða má sér á dýrðarinnar veigum. Skákir fyrstu umferðar eru aðgengilegar á pgn formi hér að neðan en það var Daði Ómarsson sem sá um innsláttinn.