Vignir Vatnar á HM í Durban!Heimsmeistaramót barna og unglinga í skák fer fram í Durban Suður-Afríku dagana 19. – 30. september.

Meðal keppenda verður ungstirnið og TR- ingurinn Vignir Vatnar Stefánsson. Honum til halds og trausts verður Helgi Ólafsson og einnig eru foreldrar Vignis með í för.

SÍ ákvað að senda ekki keppendur að þessu sinni á heimsmeistaramótið enda um langan veg að fara. Mótið hentar Vigni þó mjög vel enda í hraðri framför og mikilvægt að hann fái tækifæri til að reyna sig við bestu jafnaldra sína í heiminum. Að áeggjan Helga Ólafssonar fór Taflfélagið að athuga grundvöllinn fyrir að gera för hans mögulega. Margir voru tilbúnir að hlaupa undir bagga með T.R. og viljum við sérstaklega þakka KR og Gallerý Skák sem styrktu drenginn myndarlega til fararinnar. Þar hefur Vignir verið tíður gestur á æfingum og vakið verðskuldaða athygli fyrir taflmennsku sína. 

Einnig styrkja SÍ og styrktarsjóður Kópavogs förina og kunnum við þessum aðilum einnig bestu þakkir fyrir.

 

Vignir mun keppa í flokki 12 ára og yngri en yfir 100 keppendur eru skráðir til leiks í þeim flokki. Þeirra stigahæstur er Awonder Liang frá Bandaríkjunum en hann skartar litlum 2323 elo stigum og FM titli. Hann var meðal keppenda á Reykjavíkurskákmótinu í fyrra og stóð sig með prýði.

 

Vignir er númer 29. í stigaröðinni en á mikið inni. Hann er mun sterkari en 1963 stigin hans segja til um og getur án efa blandað sér í toppbaráttuna ef allt smellur saman. Það verður afar skemmtilegt að fylgjast með stráknum á þessu móti og mun Taflfélagið flytja reglulegar fréttir af gangi mála.

 

Beinar útsendingar verða frá mörgum skákum.

 

  • Heimasíða Heimsmeistaramótsins