Vignir vann í dag – Meðal efstu í hraðskákmótinu



Vignir Vatnar Stefánsson komst aftur á sigurbraut þegar hann sigraði rúmenskan skákmann í fjórðu umferð Heimsmeistaramóts áhugamanna sem fram fór í dag.  Vignir hafði svart að þessu sinni og er sigurinn mikilvægur en nú þegar mótið er næstum hálfnað hefur Vignir 2,5 vinning og er í 53.-79. sæti og góðan stigagróða í farteskinu.  Fjórir keppendur eru efstir með fullt hús vinninga.

 

Fimmta umferð fer fram á morgun og hefst að venju kl. 12.30 en þá stýrir Vignir hvítu mönnunum gegn öðrum Rúmena sem hefur 1883 stig.  Ljóst er að sigur í þeirri viðureign færir okkar mann í efri hluta töflunnar.

 

Í dag fór að auki fram hraðskákmót meðfram aðalmótinu þar sem 112 keppendur tóku þátt þar sem flestir höfðu 1800-2200 elo stig.  Níu umferðir voru tefldar með þriggja mínútna umhugsunartíma ásamt tveggja sekúndna viðbótartíma.  Vignir Vatnar, sem er öflugur í hraðskákinni, gerði sér lítið fyrir og hafnaði í 3.-7. sæti með sjö vinninga og varð efstur keppenda yngri en tólf ára.  Eftir stigaútreikning sat Vignir í fjórða sæti og hlýtur u.þ.b. 150 evrur í verðlaun.

  • Skákir Vignis
  • Chess-Results
  • Heimasíða mótsins