Vignir á flugi – sigraði í fimmtu umferð



Hinn níu ára TR-ingur, Vignir Vatnar Stefánsson, er heldur betur að finna sig á HM ungmenna sem fer fram í Slóveníu þessa dagana.  Vignir hefur teflt langt upp fyrir sig allt mótið ef frá er skilin fyrsta umferð og í fimmtu umferð, sem fór fram í morgun, lagði hann Rússann Ivan Kharitonov með svörtu.  Andstæðingur Vignis var að þessu sinni tæplega 200 elo stigum hærri en okkar maður.

Með sigrinum kemur Vignir Vatnar sér í mjög góða stöðu í efri hluta töflunnar og tryggir sér áfram stigahærri andstæðinga.  Sem stendur er hann í 23.-43. sæti og er stigalægsti keppandinn í hópi þeirra sem hafa 3,5 vinning ef frá er skilinn einn stigalaus keppandi.  Haldi hann þessu góða gengi áfram er ljóst að stigagróðinn verður mikill en sem stendur er hann 26 stig.

Sjötta umferð hefst núna á eftir kl 16 að íslenskum tíma og þá hefur Vignir hvítt gegn enn einum Rússanum, Vitaly Gurvich.  Sá hefur 1860 elo stig og hefur aðeins tapað einni skák í mótinu líkt og Vignir.  M.a. gerði hann jafntefli við stigahæsta keppanda flokksins sem er með 2120 stig.  Það er því ljóst að Vignir þarf að hafa sig allan við að ná sigri í dag en hann er sterkur með hvítu og greinilega með mikið sjálfstraust sem mun hjálpa honum í baráttunni.  Rússinn er einnig með nokkuð lágt vinningshlutfall með svörtu, eitthvað sem mun vonandi verða Vigni til góðs.

  • Heimasíða mótsins
  • Úrslit, staða og pörun
  • Beinar útsendingar
  • Skák Vignis úr 1. umf