U-2000 mótið: Haraldur og Sigurjón efstir með fullt hús



Að loknum þremur umferðum í U-2000 móti TR eru Haraldur Haraldsson (1958) og Sigurjón Haraldsson (1765) efstir og jafnir með fullt hús vinninga. Í þriðju umferð sigraði Haraldur Björgvin Jónas Hauksson (1744) en Sigurjón hafði betur gegn Hjálmari Sigurvaldasyni (1509). Fimm keppendur koma næstir með 2,5 vinning, þeirra á meðal Ingvar Egill Vignisson (1647) sem heldur áfram góðu gengi og gerði nú jafntefli við Jon Olav Fivelstad (1928).

20181024_193607

Í fjórðu umferð sem fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld mætast efstu menn innbyrðis, þeir Haraldur og Sigurjón. Á öðru borði fær Jon Olav það verðuga verkefni að eiga við hina ungu Batel Goitom Haile (1582) með svörtu mönnunum og á því þriðja stýrir Ingvar Egill hvíta hernum gegn engum öðrum en Kristjáni Erni Elíassyni (1818). Flautað verður til leiks á slaginu 19.30 og þá verður að auki allt klárt í Birnu-kaffi hvar gestir og gangandi geta kitlað bragðlaukana og mett svanga maga.

Pörun, úrslit og stöðu ásamt skákunum má finna á Chess-Results.