U-2000 mótið: Fimm á toppnum og óvænt úrslitÞað urðu heldur betur sviptingar í toppbaráttu U-2000 mótsins þegar úrslit fjórðu umferðar lágu fyrir seint í gærkveld. Efstu menn, Haraldur Haraldsson (1958) og Sigurjón Haraldsson (1765), gerðu jafntefli í innbyrðis viðureign og þau úrslit nýttu þrír aðrir keppendur sér til að komast upp að hlið þeirra. Jon Olav Fivelstad (1928) sigraði Batel Goitom Haile (1582), Ingvar Egill Vignisson (1647) hélt uppteknum hætti og lagði nú Kristján Örn Elíasson (1818) og Páll Þórsson (1646) vann góðan sigur á Haraldi Baldurssyni (1984). Jon, Ingvar og Páll eru því efstir með 3,5 vinning ásamt þeim Haraldi og Sigurjóni en næstir með 3 vinninga eru Björgvin Jónas Hauksson (1744), Helgi Pétur Gunnarsson (1711) og Héðinn Briem (1612).

Börnin eru hörð í horn að taka. Óttar Örn stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn Lárusi.

Börnin eru hörð í horn að taka. Óttar Örn stýrði hvítu mönnunum til sigurs gegn Lárusi.

Nokkuð var um að hinir stigalægri næðu hagstæðum úrslitum gegn þeim stigahærri en athyglisverðustu úrslitin eru án vafa sigur hins unga Óttars Arnar Bergmann (1122) á hinum margreynda Lárusi H. Bjarnasyni (1547). Þrátt fyrir að meira en 400 Elo-stigum muni á þeim köppum er Óttar sýnd veiði en ekki gefin enda hefur hann verið iðinn við kolann að undanförnu og hafa framfarir hans ekki látið á sér standa.

Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og hefst venju samkvæmt kl. 19.30. Þá mætast m.a. Jon Olav og Haraldur Haraldsson, Sigurjón og Páll, sem og Björgvin Jónas og Ingvar Egill. Heitt á könnunni og ljúffengar veitingar í Birnu-kaffi! Skákir mótsins ásamt úrslitum og stöðu má finna á Chess-Results.