TR er 120 ára í dagHér birtist grein Guðmundar G. Þórarinssonar í tilefni 120 ára afmælis félagsins.

TAFLFÉLAG REYKJAVÍKUR  120 ÁRA

 1. Október 2020

Taflfélag Reykjavíkur var stofnað 6. október árið 1900 og er líklega eitt elsta íþróttafélag landsins.   Þegar TR var stofnað var ekkert íþróttafélag til í landinu annað en Skautafélagið. Það er í raun forvitnilegt að litast um  á skáksviðinu um aldamótin 1900. Af fornum bókum Íslendinga má sjá að Íslendingar tefldu talsvert fyrr á öldum og um það eru ýmsar heimildir. Í Búalögum um 1500 er þess getið að það kosti 12 álnir að kenna að tefla. Ekki er auðvelt að geta sér til um skákstyrk hér á landi fyrr á öldum en í Ferðabók Eggerts Ólafssonar er sagt að Vestfirðingar séu bestir skákmenn, en síðar urðu Grímseyingar orðlagðir fyrir taflmennsku.

En árið 1900 er í fyrsta sinn stofnað taflfélag hérlendis, í fyrsta sinn farið að tefla hér í formlegum félögum.

Guðmundur Arnlaugsson sá merki eðlisfræðingur og fyrrum Íslandsmeistari í skák,  kallaði stofnun Taflfélags Reykjavíkur: “þáttaskil í íslenskri skáksögu, stökk skákarinnar frá miðöldum inn í nútímann.” Þar með taka menn að iðka þessa íþrótt sína í formlegu félagi og segja má að nær allir Íslendingar sem náðu langt á sviði skákarinnar, þeir sem voru valdir til að tefla fyrir land sitt á alþjóðamótum, mestan hluta 20. aldarinnar, hafi hlotið þjálfun sína í Taflfélagi Reykjavíkur. Þegar frumkvöðullinn að stofnun TR, Pétur Zophóníasson, leit yfir farinn veg sagði hann: “það er enginn vafi að  Taflfélag Reykjavíkur hefur unnið þjóðinni gagn. Það hefur kennt fjölda manns að beita áhrifum sínum, að einbinda hugann við ákveðið mark og hugsa fast og skipulega.” “En það hefur líka veitt félögum sínum holla og góða skemmtun og ef til vill forðað þeim frá ýmsum laklegum skemmtunum.”

Menn telja að skáklistin hafi komið til Íslands frá Bretlandi en ekki frá Norðurlöndum og taka þá mið af heitum taflmannanna á borðinu, hrókur, biskup, riddari, peð á ensku rook, bishop, knight og pawn. Nú telja menn ljóst að Íslendingar séu þeir fyrstu sem nefna taflmann biskup. Enn er athyglisvert að Íslendingar virðast einir þjóða eiga sögnina að tefla, í öðrum löndum er talað um að spila, danskan spille skak, enskan play  chess, þýskan schach spielen, franskan jouer echec.

Menn nefna dæmi um sér íslenska skák svo sem margfalt mát, þar sem hvert mátið var látið fylgja á eftir öðru, valdskák þar sem ekki mátti drepa valdaðan mann og hnefskák.

Guðmundur Arnlaugsson telur í grein um skák á Íslandi að eðlilegri afleiðing af hrókur sé að hrækja en ekki hróka.

Í kjölfar stofnunar TR voru síðan stofnuð nokkur taflfélög árin 1901 og 1902. Ég nefni Skákfélög á Ísafirði, Akureyri, Bolungavík, Stykkishólmi, Seyðisfirði, Húsavík, Patreksfirði, Keflavík og Eiðum auk Skákfélags íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn og Skákfélag Íslendinga í Winnepeg. Árið 1903 er því um að ræða 10 skákfélög Íslendinga með um 300 félagsmenn. Til samanburðar má geta að nú eru líklega milli 25 og 30 taflfélög með aðild að Skáksambandi Íslands.

Ljóst virðist að Pétur Zophóniasson var frumkvöðull að stofnun TR og fyrsti formaður var Sigurður Jónsson. Af heimildum má ráða að prófessor Daniel Willard Fiske hafi verið hjálparhella félagsins frá upphafi enda segir Bogi Th Melsted í æviágripi um Fiske að hann hafi unnið stöðugt í þrjú ár, frá 1900 til 1903, að því að auka áhuga á skák á Íslandi.  Fiske var sterkur skákmaður og gaf út tímaritið American Chess Monthly í fjögur ár, 1857-1860 með ekki ómerkari skákmanni en Paul Morphy. Hann fékkst mikið við ritstörf og þekking hans á íslenskri málfræði og íslenskri sagnfræði var slík að fáir eða engir erlendir menn standa honum jafnfætis nema ef vera kynni R.K.Rask og Konrad Maurer. Hann safnaði um árabil  orðum í íslensku sem tengjast skák.

Hann gaf út um aldamótin 1900  bókina Chess in Iceland og í tvö ár tímaritið Í Uppnámi og tók nafnið úr Sturlungu. Einnig gaf hann út  árið 1901: Mjög lítinn skákbækling. Hér er ekki staður né stund til að telja allar gjafir Fiske til Íslendinga. Á sextugsafmæli Friðriks Ólafssonar hélt Skáksamband Íslands honum til heiðurs alþjóðlegt skákmót í Þjóðarbókhlöðunni. Þá var þar sýning á gjöfum Fiske til safnsins. En rit sín um skák hygg ég að Fiske hafi gefið út fyrir TR. Hann gaf TR skákborð og menn, bækur, peninga og verðlaun og hann gaf félaginu allar tekjur af sölu rita sinna um skák hérlendis. Rit hans Í Uppnámi er talið eitthvert vandaðasta rit um skák sem þá var gefið út og tímaritið og bækurnar  lét hann prenta í Florens. Þetta rit ásamt bókinni Chess in Iceland hefur TR endurútgefið og mun enn unnt að fá þessar bækur keyptar hjá félaginu.

Hér er aðeins drepið á sumar gjafir Fiskes og nokkur atriði í viðleitni hans til þess að efla áhuga á skák á Íslandi. Hann gaf einstaklingum og skólum taflborð og menn og taflsett gaf hann hverju heimili í Grímsey.

Afmælis TR verður ekki minnst án þess að nefna nafn þessa velgjörðarmanns félagsins. TR hefur helgað eitt  alþjóðlegu Reykjavíkurskákmótanna minningu prófessors Daniel Willard Fiske.

 

Saga TR er framan af 20. öldinni saga skáklistarinnar á Íslandi.

 

Við höfum oft sagt og talið að skákin njóti almennari vinsælda á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Íslendingar eiga sér orðtak “að leggjast í skák” sem kann að minna á orðtakið “að leggjast í óreglu”.

 

Sem fyrr segir mun Pétur Zophóníasson hafa átt hugmyndina að stofnun Taflfélags Reykjavíkur. Þetta var árið 1900 og Pétur var þá nýkominn frá verslunarnámi í Kaupmannahöfn. Í grein um fyrstu 10 ár TR segir hann frá aðdragandanum. Stofnfélagar voru 29 og í grein sinni getur hann 25 þeirra. Þeir voru:

 • Pétur Zophóníasson
 • Sigurður Jónsson
 • Sturla Jónsson
 • Pétur Pétursson
 • Friðrik Jónsson kaupmaður
 • Einar Benediktsson skáld
 • Björn M. Olsen rektor
 • Indriði Einarsson rithöfundur
 • Jakob Jónsson verslunarstjóri
 • Ingvar Pálsson kaupmaður
 • Helgi Helgason verslunarstjóri
 • Júlíus Guðmundsson kaupmaður
 • Pétur Bogason læknir
 • Skúli Bogason læknir
 • Sturla Guðmundsson cand. phil.
 • Sigurður Guðmundsson prestur
 • Jens Waage bankastjóri
 • Ágúst Sigurðsson prentari
 • Pétur G. Guðmundsson fjölritari
 • Ólafur Björnsson ritstjóri
 • Sigurjón Jónsson framkvæmdastjóri
 • Þórður Sveinsson læknir
 • Baldur Sveinsson blaðamaður
 • Magnús Magnússon skipstjóri
 • Ludvig Andersen heildsali.

 

Meðal manna sem síðar urðu félagar má nefna Sigurð Thoroddsen fyrsta verkfræðinginn, Ólaf  Dan Daníelsson stærðfræðing, Ólaf Thors síðar forsætisráðherra, Björn Kalmann sem sumir telja Dr B í smásögunni manntafl og Erlend Guðmundsson í Unuhúsi.

Í þessu sambandi má nefna að Pétur Zóphóníasson segir að Björn Kalmann hafi farið til Kanada og teflt þar talsvert við skákmeistara Kanada, Íslendinginn Magnús Smith, og verið  jafn honum. Þá hafi Björn verið sá eini sem vann Marshall í fleirtefli.

Pétur nefnir nokkur dæmi um að skákreglur voru ófullkomnar í höfuðstaðnum þegar TR var stofnað.

 1. Uppkomureitur réð ef peð komst upp í borð hvaða maður var vakinn upp. Peð sem kom upp á riddarareit varð riddari, á biskupsreit biskup o.s.frv.
 2. Framhjáhlaup þekktist ekki
 3. Hróka mátti á nær alla vegu, en algengast var að kóngur og hrókur skyldu standa á samlitum reitum.

Stofnendur félagsins voru nokkurs konar aðall eða intellegens í bænum segir Þorlákur Ófeigsson í grein um TR en síðan breyttist þetta og uppistaða félagsmanna varð ungir menn úr iðnaðar- og verslunarstétt.

Taflfélag Reykjavíkur stofnaði til Skákþings Íslands árið 1913 og farandgripur mótsins varð marmaraborð, taflborðið Fiskenautur. Á veggjum skrifstofu TR hanga innrömmuð verðlaunaskjöl Eggerts Gilfers og Einars Þorvaldssonar og þar kemur fram að þeir vinna marmaraborðið. 1918 er farið að festa gulltöflur með nöfnum sigurvegarans  á borðið. Seinna mun borðið hafa brotnað og glatast og er það mikill skaði. Ekki veit ég hvort nokkur treystist til að rekja örlög borðsins sem væri mikill kjörgripur ef til væri í dag.

Þorlákur Ófeigsson getur þess að árið 1917 hafi komið upp spilasótt í félaginu. “Lentu þá nokkrir góðir skákmenn inn á hliðargötu spilamennskunnar og slógu slöku við taflið.”

Öll félög eiga sérstaka velunnara. Elís Ó. Guðmundsson segir frá því þegar hann kom til Reykjavíkur. Hann hafði áhuga á að ganga í TR. Honum var vísað á Harald í Zimsen. Harald í Zimsen þekktu allir en fáir TR. Og Haraaldur í Zimsen tók honum eins og hann hefði komið gagngert til Reykjavíkur austan af Fjörðum til þess að ganga í TR.

 

Árið 1925 stofnuðu taflfélög á Norðurlandi Skáksamband Íslands í óþökk TR. Það er undarlegt til þess að hugsa að þessi frumkvöðull skáklistarinnar á Íslandi, TR, skuli ekki hafa verið stofnaðili að Skáksambandi Íslands. TR gekk þó fljótlega í SÍ enda óhugsandi að hafa þennan aflvaka skáklistarinnar á Íslandi utan Skáksambandsins.

 

Það háði lengi starfsemi TR að það átti ekkert öruggt húsaskjól og var oft á hrakhólum með félagsstarfið og mótshald. Þess er ánægjulegt að minnast að einstakir félagsmenn héldu uppi öflugu skáklífi í húsum sínum. Ég nefni hér þá Guðjón M. Sigurðsson, Þóri Ólafsson og Svein Kristinsson en á heimilum þeirra var öflugt skáklíf um árabil.

Ég held þó að ég halli ekki á neinn þó ég segi að þáttur Guðmundar Ágústssonar í þessum efnu sé einstakur hér á landi og þó víðar væri leitað. Sumir segja að TR hafi um langt árabil nánast verið staðsett heima hjá honum. Skákmenn voru daglegir gestir á heimili Guðmundar Ágústssonar, alltaf í kaffi, oft í mat og fyrir kom að þeir sváfu þar, að ekki sé talað um önnur veisluhöld. Var þá ótæpilega gengið í bakaríið og meðlæti sótt.

Ein saga sem mér hefur verið sögð af Guðmundi Ágústssyni er þess eðlis að rétt er að geta hennar hér því hún lýsir manninum og má ekki glatast. Sagt er að einhverju sinni var brotist inn í bakaríið. Guðmundur var ekki heima en lögreglan var kvödd til. Þegar Guðmundur kom heim var lögreglan að yfirheyra óhrjálegan manngarm. “Hvað gengur á hér’” spurði Guðmundur. Brotist var inn og stolið sagði lögreglan. “Hverju var stolið?” spurði Guðmundur. Það reyndist vera mjólk, brauð og kökur. “ Það er ekki þjófnaður” sagði Guðmundur, “maðurinn hefur verið svangur” “Farið þið” sagði hann við lögregluna “þið hafið ekkert hér að gera” Guðmundur sneri sér síðan að manngarminum og sagði:”það er óþarfi fyrir menn að svelta hér. Ég hef alltaf kistu fyrir utan dyrnar og þar er mjólk og brauð. Það getur þú tekið ef þú ert svangur.” Síðan birsti hann sig og sagði hastur: “En ég vil ekki hafa að þú eyðileggir fyrir mér hurðina.”

Taflfélag Reykjavíkur eignaðist fyrst þak yfir höfuðið árið 1967 í formannstíð Hólmsteins Steingrímssonar. Hólmsteinn hefur lengst verið formaður TR allra eða 8 ár og vann gríðarlegt starf, bæði á sviði félagsmála og fjármála félagsins. Hans hlýtur að verða minnst sem eins af merkilegustu félagsmálamönnum TR. Hólmsteinn var umdeildur eins og margir framkvæmdamenn og hann kom ekki skapi sínu saman við alla. Hefði honum tekist að yfirstíga þann þátt í skapi sínu væri þáttur hans í sögu TR enn glæsilegri en ella. Um hann segir Þráinn Guðmundsson í ágætri grein í tímaritinu SKÁK: “ Hann var vissulega umdeildur og sambúð hans við Skáksambandið oft stormasöm, kannske villti óhemjumetnaður hans fyrir hönd félags síns honum stundum sýn, en Taflfélag Reykjavíkur hlýtur að setja hann á hæsta stall þegar litið er til baka á þessum tímamótum nú.”

Síðar var húsnæðið að Grensásvegi 46 selt og í formannstíð Jóns Briem keypt í Faxafeni 12 þar sem TR er enn til húsa.

Rétt er að nefna það að í formannstíð Jóhanns Þóris Jónssonar var hrundið í framkvæmd þeirri röð Reykjavíkurskákmóta sem enn eru við lýði og vonandi um langa framtið. Þáttur Jóhanns Þóris í skáklífi Íslendinga er slíkur að um hann þyrfti að rita sérstaklega og hafa sumir kallað Jóhann Þóri annan Willard Fiske íslensks skáklífs.

Ég slæ nú  botn í þessa lauslegu samantekt um þætti í sögu TR. Hún ber þess merki að henni er hróflað saman á stund milli stríða, milli anna við útreikning járnabindinga og gerð eignaskiptayfirlýsinga og þyrfti meiri tíma og ítarlegri vinnu til að gera sómasamlega.

Það er nauðsynlegt að skrifa sögu TR og tilefni gefst varla betra en 120 ára afmæli. Þráinn Guðmundsson  ritaði sögu Skáksambandsins hefði verið fengur að ef hann hefði ritað sögu TR. Fyrir um 70 árum var saga TR rituð og vissulega kominn tími til að taka til við skriftir nú.  Þráinn segir í grein um TR að hann hafi gjarnan nefnt TR Móðurskipið í umfjöllun um sögu íslensku skákhreyfingarinnar.  Hann dregur þar saman nokkur atriði sem sýna áhrif TR frá aldamótunum 1900.

Af þeim 32 sem orðið hafa Íslandsmeistarar í skák frá 1913 eru allir nema Helgi Ólafsson eldri og e.t.v. Freysteinn Þorbergsson félagsmenn TR. Nær allir, sem teflt hafa fyrir Ísland á erlendri grund, tóku út þroska sinn í TR. Fyrsti Norðurlandameistari okkar, Baldur Möller, Friðrik Ólafsson og  nær allir Ólympíufarar og stórmeistararnir okkar fjórtán.

Í sveitakeppni skákfélaga, Deildakeppni S.Í. hefur TR í  nær hálfa öld hefur TR oftast unnið sigur. Þetta finnst mér menn verði að hafa í huga þegar hugsað er til frumkvöðlanna, berandi töfl og klukkur milli húsa í misjöfnum veðrum við undirbúning mótshalda, heyjandi óvinnandi orustur við stöðuga fjárhagsörðugleika, með eldhug og óslökkvandi áhuga sem eina vopnið.

Ríkharður Sveinsson formaður félagsins hefur sagt mér að á þessum tímamótum sé fjárhagur félagsins með traustasta móti.

Við óskum öll þessum aflvaka skákhreyfingarinnar á Íslandi til hamingju á 120 ára afmælinu. Við hugsum ekki til Taflfélags Reykjavíkur á þessum tímamótum sem öldungs sem kominn er að fótum fram, heldur sem félags  sem á styrkum undirstöðum fornrar frægðar og merkrar sögu mun um ókomin ár áfram verða aflvaki í íslensku skáklífi.