Rimaskóli Reykjavíkurmeistari grunnskólasveita



Reykjavíkurmót grunnskólasveita fór fram í 36. sinn í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur í gær. Það er Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar sem heldur mótið í samstarfi við Taflfélag Reykjavíkur og alls mættu 28 vaskar fjögurra manna sveitir úr þrettán skólum til leiks að þessu sinni, sem verður að teljast afar gott. Sérstakt ánægjuefni var að sjá 6 stúlknasveitir taka þátt en þar af komu tvær frá Ingunnarskóla. Mótið verður að telja eitt það alskemmtilegasta og best sótta í áraraðir og er frábært vitni um þá miklu grósku sem er í skákstarfi grunnskóla Reykjavíkur og úti í taflfélögunum. Mikil aukning hefur verið í aðsókn á fríar skákæfingar barna og unglinga hjá Taflfélagi Reykjavíkur í vetur og salurinn þéttsetinn alla laugardaga.

 Þegar Reykjavíkurmót grunnskólasveita var haldið í fyrsta sinn með núverandi sniði árið 1978 sigraði sveit Álftamýrarskóla en meðal keppenda í þeirri sveit var enginn annar en Jóhann Hjartarson stórmeistari. Æfingaskóli K.H.Í hefur sigrað keppnina oftast allra eða sex sinnum, en fimm sinnum hefur Seljaskóli borið sigur úr bítum. Tefldar voru sjö umferið með 10 mínútna umhugsunartíma, og tóks mótið frábærlega í alla staði. Allir virtust skemmtu sér konunglega, keppendur, liðsstjórar, foreldrar og aðrir gestir. Hart var barist um efstu sætin eins og vænta mátti, en fyrirfram þótti sveit ríkjandi meistara Rimaskóla hvað líklegust ásamt sveit Hagaskóla og hinni kornungu en geysiefnilegu A sveit Ölduselsskóla. Fljótlega tók A sveit Rimaskóla forystuna og skemmst er frá því að segja að hana lét hún aldrei af hendi, þótt á tímabili hafi litlu munað á efstu sveitum. Sveitin sigraði með 25 vinninga af 28 mögulegum sem er glæsilegur árangur. Sigursveit Rimaskóla leiddi Oliver Aron Jóhannesson, á öðru borði tefldi skákdrottningin unga Nansý Davíðsdóttir, á þriðja borði var Jóhann Arnar Finnsson og á því fjórða tefldi Joshua Davíðsson. 

Eftir harða keppni um annað sætið komu sveitir Hagaskóla og Ölduselsskóla A hnífjafnar í mark með 21.5 vinninga. Eftir stigaútreikning munaði einungis einu stigi á sveitunum og hafði Ölduselsskóli þar vinninginn og hlaut því silfurverðlaunin. Sveitina skipuðu þeir Óskar Víkingur Davíðsson á fyrsta borði, Mykhaylo Kravchuk á því öðru, Alec Elías Sigurjónsson á þriðja og Brynjar Haraldsson á fjórða borði. Þessir drengir eru allir gríðarlega efnilegir og eiga eftir að láta mikið að sér kveða næstu árin.

 Bronssveit Hagaskóla skipuðu þau Gauti Páll Jónsson sem hafði unnið mjög óvænt silfurverðlaun á Hraðskákmóti Reykjavíkur deginum áður, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, Leifur Þorsteinsson, Sigurður Kjartansson og Smári Arnarsson Baráttan um sigur í stúlknaflokki var enn harðari en í aðalflokknum, en þar var sveit Melaskóla efst fyrir síðustu umferð. En stúlknasveit Rimaskóla sýndi mikla seiglu í lokaumferðinni, skaust upp í fyrsta sætið og sigraði með 14.5 vinningum. Sveitina skipuðu þær Guðrún Margrét Guðbrandsdóttir, Ásdís Birna Þórarinsdóttir, Tinna Sif Aðalsteinsdóttir og Valgerður Jóhannesdóttir. Melaskóli hafnaði í öðru sæti með 13.5 vinninga, en þá sveit skipuðu þær Svava Þorsteinsdóttir, Katrín Kristjánsdóttir, Helga Lan og Vigdís Selma Sverrisdóttir.A stúlknasveit Ingunnarskóla, og sveit Breiðholtsskóla stóðu sig einnig feikilega vel og komu í mark með 13 vinninga. Ingunnarskóli hlaut bronsið eftir stigaútreikning. Eftir verðlaunaafhendinguna dró skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur C sveit Árbæjarskóla upp úr hattinum í happadrætti og hlutu allir meðlimir sveitarinnar glæsileg taflsett ásamt skákkennsluefni á geisladiski að gjöf. Það var skákverslunin Bobbý sem gaf þessi verðlaun og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.

Þar með lauk stórskemmtilegu Reykjavíkurmóti grunnskólasveita 2014. Taflfélag Reykjavíkur og Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar vilja þakka öllum þeim fjölmörgu sem tóku þátt í mótinu og okkur hlakkar til að sjá ykkkur á enn fjölmennara móti að ári! Þakkir fær einnig Skákakademía Reykjavíkur sem og Skákskóli Íslands fyrir hjálpina. Gens una sumus!

Lokastöðuna má finna hér að neðan og mikið af myndum hér.

 

1 Rimaskóli A, 25,0
2.-3. Ölduselsskóli A, 21,5
Hagaskóli, 21,5
4 Árbæjarskóli A, 18,5
5.-7. Kelduskóli, 16,5
Fossvogsskóli A, 16,5
Rimaskóli B, 16,5
8 Ölduselsskóli B, 15,5
9.-10. Ingunnarskóli A, 15,0
Sæmundarskóli A, 15,0
11.-12. Rimaskóli C, 14,5
Rimaskóli S, 14,5
13 Sæmundarskóli B, 14,0
14-17 Ingunnarskóli B, 13,5
Melaskóli S, 13,5
Hlíðaskóli, 13,5
Háteigsskóli, 13,5
18-20 Sæmundarskóli C, 13,0
Ingunnarskóli S1, 13,0
Breiðholtsskóli S, 13,0
21 Laugalækjarskóli, 12,5
22 Fossvogsskóli B, 12,0
23 Árbæjarskóli B, 11,5
24 Ingunnarskóli C, 10,5
25 Breiðagerðisskóli, 9,5
26 Foldaskóli S, 7,0
27 Árbæjarskóli C, 6,5
28 Ingunnarskóli S2, 5,0